Grænar greinar fyrir jólin – hluti I

Fyrstu íbúðarhúsin á Akureyri risu á síðari hluta 17. aldar og má því segja að samfélag okkar hér á Akureyrinni hafi að mestu byggst upp á síðustu 250 árum. Margt eða kannski réttara sagt allt hefur breyst frá þeim tíma.

Á síðustu 70-80 árum (aðeins einni mannsævi) hefur íbúum fjölgað um 15.000. Í dag búa rúmlega 18.200 einstaklingar á Akureyri, á 7.500 heimilum, og þeir aka um 110 km af malbikuðum götum á 13.400 fólksbifreiðum (sem nota bensín og dísil) og 70 bifreiðum sem geta notað umhverfisvæna orku (0,5% af bílaflotanum), og hver og einn lætur frá sér um 1 tonn af úrgangi á ári eða ríflega 18.000 tonn samtals.

Til að láta heilt svona samfélag ganga sem best fyrir sig með sem minnstu veseni höfum við sett á laggirnar allskonar starfsemi sem við rekum með sameiginlegum sjóðum bæjarins. Rekstur sundlauga, hitaveitu, rafveitu, fráveitu, skíðasvæðis, snjómoksturs, strætó, sorphirðu og leik- og grunnskóla eru dæmi um verkefni sem við þurfum lítið að spá í dags daglega; þau bara virka. Við sættum okkur hinsvegar ekki við að þessum verkefnum sé sinnt af einhverri meðalmennsku því um leið og þjónustustigið dalar eða breytist fá stjórnendur bæjarins skýr skilaboð frá samfélaginu.

Öll gerum við okkur fyllilega grein fyrir því að þetta kostar allt mikla peninga en ekki er gott að segja hvort við gerum okkur síður grein fyrir því vegna þeirrar staðreyndar að það er frítt í strætó, við notum klukku í stað peninga á bílastæðin í miðbænum og það kemur ekki sérstakur reikningur til okkar fyrir sorphirðu, skólagöngu eða snjómokstri.

Mig langar hér að nefna sérstaklega eitt fyrirtæki sem við Akureyringar eigum stóran hluta í ásamt nágrönnum okkar hér í Eyjafirði en það er umhverfisfyrirtækið Molta. Molta ehf. tók til starfa árið 2009 og tekur við lífrænum úrgangi á svæðinu. Verkefnið lenti í miðju hruni og skuldirnar urðu óviðráðanlegar. Samið var við lánardrottna árið 2014 og skuldirnar stilltar af þannig að þær tekjur sem félagið hefur af móttöku á lífrænum úrgangi duga fyrir útgjöldunum og afborgunum af lánum. Hvað hefði gerst ef ekki hefði verið samið um skuldirnar; er hægt að setja félag eins og Moltu í gjaldþrot? Molta er nefnilega ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Ef blaðaútgáfa fer í gjaldþrot hættir blaðið bara að koma út en þó fyrirtæki eins og Molta fari í þrot hættir lífrænn úrgangur ekkert að streyma frá samfélaginu með öllu því veseni og þeim kostnaði sem því fylgir.

Í dag er Molta rekin réttum megin við núllið og unnið er að því að búa til meiri verðmæti úr afurðinni, moltunni sjálfri. Félagið fékk nýlega styrk frá Matís til að vinna að gæðamálum og vöruþróun, og einnig er í gangi tilraunaverkefni Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu þar sem kannað er hvernig moltan hentar sem nesti fyrir skógarplöntur í mjög rýru landi. Ef tilraunin gefst vel gæti hér verið komin hentug aðferð til að gefa berum auðnum líf og koma þar af stað gróðurframvindu, eins og segir í frétt á vefsíðu félagsins. Til marks um mikilvægi þessa verkefnis útnefndu Sameinuðu þjóðirnar árið 2015 ár jarðvegs, einmitt til að vekja athygli á mikilvægi jarðvegs og þeim ógnum sem steðja að honum í heiminum.

Flokkun á lífrænum úrgangi frá heimilum á Akureyri er dæmi um verkefni þar sem allt veltur á stemmingu þátttakenda. Þetta verkefni hefði geta mislukkast algjörlega en af því að kerfið var vel undirbúið, ferlið skýrt og búnaðurinn góður tóku bæjarbúar þessu vel og hafa svo sannarlega staðið við sitt í því að draga verulega úr þeim umhverfisáhrifum sem lífrænn úrgangur veldur ef honum er ekki komið í réttan farveg.

 

Guðmundur Haukur Sigurðarson

Framkvæmdastjóri Vistorku ehf.