Rafbílar

Eitt af markmiðum Akureyrarbæjar er kolefnishlutlaust samfélag og fjölgun vistvænna bíla. Fjöldi rafbíla og tengiltvinnbíla á Íslandi hefur margfaldast á síðustu árum. Í byrjun árs 2015 voru samtals 302 slíkir bílar skráðir á landinu en í lok árs 2018 voru þeir orðnir 8.540

Flestir rafbílaeigendur kjósa að hlaða bílana heima hjá sér, hvort sem þeir búa í fjölbýli eða einbýli. Fyrir bíleigendur sem búa í fjölbýli getur reynst hægara sagt en gert að setja upp hleðslustöðvar. Til eru dæmi um að eigendur setji framlengingasnúrur úr íbúðum sínum og út á bílastæði til að nota til hleðslu, en slíkt getur reynst hættulegt vegna brunahættu.

Hleðsla rafbíla hefur í för með sér töluverða straumnotkun sem getur stafað hætta af ef tengingar og annað er ekki rétt uppsett. Séu margir rafbílar í hleðslu getur samtals orkunotkun þeirra hæglega orðið meiri en í öllu fjölbýlinu, við aðra notkun. Því er mikilvægt að tryggja öryggi við uppsetningu og að fara eftir reglum Mannvirkjastofnunnar.

Mannvirkjastofnun, innflutningsaðilar hleðslustöðva og fleiri fyrirtæki, hafa gefið út leiðbeiningar varðandi uppsetningu á hleðslustöðum, hvaða reglur eru í gildi og hvað beri að varast.

Einnig er gott að hafa samband við Norðurorku, söluaðila hleðslulausna, rafvirkja eða aðra fagaðila til að fá aðstoð og leiðbeiningar, sjá nánari upplýsingar undir flipunum hér á síðunni og sérstaklega undir tengt efni.

Upplýsingarnar á þessari síðu eru unnar í samstarfi við, Orkusetur, Norðurorku, Fallorku, Akureyrarbæ, Hlöðu, Eflu og Raftákn

Norðmenn standa framarlega þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum en yfir helmingur allra nýrra bíla í Noregi gengur fyrir rafmagni. Í norskri grein, sem nálgast má á heimasíðu Vistorku, er farið yfir eftirfarandi 8 atriði fyrir húsfélög sem gott er að hafa í huga fyrir uppsetningu hleðslustöðva.

 1. Forðast einfaldar sérlausnir fyrir einstaklinga en einblína frekar á að setja upp kerfi sem gæti nýst öllum íbúum hússins.
 2. Gera ráð fyrir að hægt sé að stækka hleðslulausnir og bæta við notendum.
 3. Búast við mismunandi hleðsluþörf íbúa, bæði er varðar afl og tímasetningu á hleðslu.
 4. Forðast að fara oft í framkvæmdir á lagnaleiðum. Oft er ódýrara að klára eins mikið af lagnamálum í byrjun og hægt er.
 5. Ekki hugsa of smátt varðandi fjölda rafbíla, þeim fjölgar hratt.
 6. Athuga afkastagetu rafkerfi hússins og hve mikið inntakið raunverulega þolir til viðbótar.
 7. Tryggja skal að lögum og reglum sé fylgt vegna rafmagnsöryggis og uppsetning sé unnin af viðurkenndum aðila.
 8. Hleðslulausn getur aukið verðmæti fasteigna.

 Á heimasíðu Mannvirkjastofnunar má finna ýmsar nytsamlegar upplýsingar varðandi öryggi og reglur hleðslustöðva.

 • Mannvirkjastofnun mælir eindregið með hleðsluaðferð 3 (Mode 3), þar sem sérhæfður búnaður tryggir að rafbíllinn sé tengdur raflögninni á öruggan hátt.
 • Tenglar til heimilisnota má mest nota til hleðslu á 10A straum, jafnvel þótt tengillinn sé 16A. Hærri straumur getur valdið bruna í tenglinum.
 • Rafbíla skal hlaða frá sérhæfðum tengistöðum, þ.e. þeim stað sem rafbíll tengist raflögn, og má einungis hlaða einn rafbíl í einu.
 • Sérhver tengistaður skal varinn með yfirstraumsvarnarbúnaði og bilunarstraumsrofa.
 • Tenglar skulu staðsettir eins nálægt stæði rafbíls eins og mögulegt er. Þeir skulu vera fast uppsettir en ekki er leyfilegt að nota færanlega tengla, t.d. með framlengingasnúru, til að hlaða rafbíl. Einnig er óheimilt að framlengja hleðslustrengi vegna hættu á ofhitnun.
 • Undir engum kringumstæðum mega hleðslustrengir liggja þar sem hætta er á að þeir verði fyrir hnjaski og þar af leiðandi ofhitnun, s.s. yfir vegi, gangstéttar eða stíga.

Þessi gátlisti er sérstaklega ætlaður fyrir húsfélög en getur að sjálfsögðu nýst öllum sem eru að fara að setja upp hleðslustöð.

 1. Afla upplýsinga um heimtaug hússins hjá Norðurorku
 2. Kanna rafmagnsnotkun fjölbýlisins og svigrúm til hleðslu rafbíla
 3. Áætla fjölda hleðslustæða, núverandi þörf og framtíðarþörf.
 4. Skoða hleðslustöðvalausnir, kosti, galla og verð
 5. Leita til rafvirkja og fá tilboð í alla verkþætti fyrir valda lausn
 6. Huga að:
  • Heimtaug
  • Mælingu á notkun
  • Þarf álagsstýringu?
  • Þarf hleðslukerfi með orkumælingu?
  • Þarf borgunarlausn?
  • Fá tilboð í ráðgjöf
  • Fá tilboð í hleðslubúnað
  • Fá tilboð í raflagnavinnu
  • Fá tilboð í jarðvinnu

Verð á raforku skiptist á milli dreifingu og sölu. Í raforkulögum frá árinu 2003 er kveðið á um aðskilnað orkufyrirtækjanna, annarsvegar milli fyrirtækja í framleiðslu og sölu og hinsvegar fyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforkunni. Flutningur og dreifing er veiturekstur með einkarétt til rekstrar á starfssvæði sínu, en framleiðsla og sala er samkeppnisrekstur og lýtur reglum samkeppnislaga. Til að tryggja að einkaréttarhlutinn greiði ekki niður kostnað við samkeppnishlutann, þá ber að skilja algjörlega (stjórnunarlega, rekstrarlega og fjárhagslega) á milli þessara þátta og hluti þessa aðskilnaðar er að útgáfa reikninga sé aðskilin, nokkuð sem leiðir til þess að raforkukaupandinn fær senda tvo rafmagnsreikninga.

Dreifing

Í dreifingu raforku fellst að taka við raforkunni frá flutningsfyrirtækinu í svonefndum aðalspennistöðvum sem eru tvær á Akureyri og koma rafmagninu síðan þaðan eftir strengjum í minni spennistöðvar sem eru rúmlega 100 að tölu víðsvegar um Akureyrarbæ.  Frá spennistöðvunum fer rafmagnið síðan eftir strengjum í svo nefnda götuskápa og þaðan eftir heimæð inn í hús viðskiptavinarins.

Á Akureyri sér Norðurorka um alla dreifingu á rafmagni. Nánari upplýsingar hjá OS.

Sala

Sala á raforku er á samkeppnismarkaði en langflestir íbúar á Akureyri eru í viðskiptum við Fallorku. Á vefsíðu Orkuseturs er reiknivél fyrir samanburð á raforkuverði til heimila

 

Rafmagnshugtök

Volt (V): Rafspenna. Þriggja fasa 400V kerfi er algengast í dag Hefðbundinn 1 fasa tengill er 230 volt.

Amper (A): Straumur frá tengli. Hefðbundinn heimilistengill er 10A-16A, 16A gengur eingöngu til skamms tíma nema með sérstökum tengli. Þriggja fasa tenglar eru til 16, 32 og 63A.

AC eða DC:  AC er riðspenna eins og er í húsum en DC er jafnspenna eins og í hefðbundnum batteríum,rafgeymum og rafmagnsbílum.

Watt (W): Afl frá t.d. hleðslutæki (1kW=1000W).  Ef bíll er með innbyggðu 7,4kW hleðslutæki og hann er settur í samband við 22kW AC hleðslutæki, hleðst hann aldrei meira heldur en bíllinn býður uppá. Aftur á móti í hraðhleðslu sem er DC hleðsla sem er í dag 50kW á Íslandi hleðst bíllinn um 50kW.

Kílówattstund (kWh): Er eining yfir magni af orku yfir eina klukkustund. Notað á heimilum til orkumælingar og í bílum til þess að gefa upp hversu mikla orku bíllinn (rafgeymarnir) hefur að geyma.

Amperstund (Ah): Er eining yfir magni af straum í eina klst. og er einkum notuð sem mælikvarði á stærð rafgeyma.

Ryk- og rakavörn (IP): Fyrri talan stendur fyrir vörn gegn ryki en seinni talan stendur fyrir vörn gegn vökva. IP 54 þýðir að hluturinn er ryk- og skvettuvarinn en IP67 er rykþéttur og sprautu-varin úr öllum áttum. Þegar hleðslubúnaður er settur upp þarf að taka tillit til veðuraðstæðna þar sem búnaði er komið fyrir.

Vörn gegn höggi (IK): Er eining yfir hversu vel búnaður þolir hnjask, á skalanum 0-10, IK10 þýðir að hluturinn er mjög höggþolinn (20.000 Joule).

Tengi búnaður / tenglar

Type 1: Kló fyrir hleðslu bíls, einfasa allt að 32A eða 7,4 kW (Asíu/Ameríku gerð, í flestum eldri japönskum bílum).

Type 2: Kló fyrir hleðslu bíls, einfasa eða þriggjafasa allt að 63A (Evrópugerð og allir framtíðar bílar á Evrópumarkaði).

AC43: AC hraðhleðsla allt að 22kW. M.a. í frönskum bílum

CHAdeMO: DC hraðhleðslutengi, m.a.  fyrir japanska bíla.

CCS (Combo Chargin System): DC hraðhleðslutengi. Sama tengið er notað fyrir hæg- og hraðhleðslu. M.a. fyrir þýska bíla.

Hleðsluaðferðir

Mode 1: Hleðsla með kapli í venjulegan tengil.

Mode 2: Hleðsla með kapli, sem er með stýrieiningu á kaplinum, í venjulegan tengil.

Mode 3: Hleðsla með heimahleðslustöð með innbyggðri stýrieiningu.

Mode 4: Hleðsla með jafnstraums búnaði (DC), beint á rafhlöðuna (hraðhleðsla).

Annað

Aðgangsstýring: Læsing með lykli eða með RFID-korti/snjallsíma.Aflstýring: Stýring á hleðslustraum.

Álagsstýring: Stýrir hópi hleðslustöðva og skammtar rafmagni á hleðslustöðvarnar eftir því hversu mikið afl er aflögu í húsinu (jafnar og deilir álagi).

Borgunarlausn (greiðslulausn): Innheimtukerfi t.d. frá utanaðkomandi aðila.

Hitavöktun: Kerfið fylgist með hita og dregur úr hleðslu eða jafnvel stöðvar ef hitastig fer yfir ákveðið mark.

Árekstrarvörn: Einhverskonar búnaður sem hindrar að hægt sé að keyra á. Fyrir framan hleðslustöðvar sem eru ekki nógu vel varðar af kantsteini er almennt komið fyrir súlum eða ákeyrslusteinum til að hindra að hægt sé að skemma búnaðinn.

Hér mun koma dæmi um uppsetningu á hleðslustöðvum fyrir fjöbýli við Holtateig á Akureyri sem eru íbúðir í eigu Búfesti.