Fimmkallinn

Framleiðsla, neysla, hagvöxtur, hagnaður og arðgreiðslur eru allt orð með frekar jákvæðan blæ yfir sér og í hugum margra er nánast samasemmerki á milli þeirra og lífsgæða. Skattur er hins vegar orð sem margir túlka sem eitthvað mjög neikvætt. Þrátt fyrir þennan neikvæða blæ orðsins eru skattar líklega okkar besta stýritæki til jöfnuðar og framfara í samfélaginu. Einn slíkur er kolefnisskatturinn, skoðum hann aðeins út frá þessu sjónarmiði.

Ef kolefnisskattur er ekki nýttur sem almenn tekjuöflun ríkis heldur sem millifærsla til framfara þá geta jákvæðir hlutir raungerst. Nú þegar er kolefnisskattur lagður á olíu. Þann skatt má nýta til fjárfestinga og ívilnana á umhverfisvænni tækni sem dregur úr olíunotkun, eykur orkuöryggi, dregur úr heilsuspillandi mengun og minnkar losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisskattur er í dag aðeins lagður beint á eina vöru sem inniheldur mikið kolefni sem við notkun losar mikið magn CO2 í andrúmsloftið.

Það er ekki bara olíubruni sem leiðir til losunar á CO2. Ef við skoðum aðeins þá losun sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins þá nær hún, auk losunar vegna olíunotkunar, líka til losunar frá úrgangi og landbúnaði.

Með kolefnisskattinum eru lagðar á um 10 krónur á hvern lítra af olíu. Best er þó að tala alltaf um kolefnislosun í kílóum eða tonnum, þannig að ef við breytum þessum 10 kr./l í krónur á kíló af CO2 sem losnar við að brenna einum lítra af olíu þá jafngildir það um 5 krónum á hvert kíló af CO2 sem bruninn losar. Sem sagt fimmkall á kílóið. Hvað með úrgang og landbúnað, hvernig kæmu þessar 5 krónur út gagnvart lífrænum úrgangi?

Það er nefnilega ekki sama hvernig lífrænn úrgangur er meðhöndlaður. Ef hann er einfaldlega urðaður gefur hvert kíló af slíkum úrgangi af sér 1,6 kg af gróðurhúsalofttegundum við rotnun á urðunarstað. Ef lífrænn úrgangur er hins vegar jarðgerður með stýrðu niðurbroti minnkar moltugerðin útblásturinn niður í einn fimmta af því sem losnar við urðun eða um kílói minna. Jarðgerð á einu kílói í stað urðunar skilar því rúmlega kílói af CO2 ávinningi.

Skoðum dæmi. Á Norðurlandi falla til um 35-40.000 tonn af úrgangi á ári. Þar af fara rúmlega 21.000 tonn beint í urðun í Stekkjarvík nálægt Blönduósi og um 8.000 tonn af lífrænum úrgangi í jarðgerðarstöðina Moltu sem er starfrækt í Eyjafirði. Rest er málmar, plast, pappi, gler, spilliefni o.þ.h. Áætlað er að um 20-30% af því sem er urðað séu lífrænn úrgangur eða um 5.000 tonn á ári. Hvað veldur?

Tæknilausnin hefur verið til staðar í 10 ár í Eyjafirði þar sem lífrænum úrgangi er breytt í jarðvegsbæti með miklum umhverfisávinningi. Við hér á Norðurlandi veljum því algjörlega meðvitað á hverju ári að losa 5.000 tonnum meira af CO2 í andrúmsloftið en við þyrftum að gera. Ástæðan er líklega sú að það kostar í dag 22 kr./kg að fara réttu leiðina og keyra lífrænan úrgang í gegnum Moltu en 12 kr./kg að fara óumhverfisvænu leiðina með urðun.

Ef urðun hefði bara sama kolefnisgjald og olía myndi skattur á lífræna urðun vera 5 kr./kg. Það myndi hækka urðunarkostnaðinn í um 17 kr./ kg. Ef þessar skatttekjur væru síðan millifærðar beint til Moltu sem greiðsla fyrir kolefnisávinninginn gætu móttökugjöldin fyrir réttu leiðina lækkað niður í 17 kr./ kg eða sama gjald og fyrir urðun með kolefnisskatti.

Þetta sýnir svart á hvítu hvernig eðlilegt kolefnisgjald getur jafnað leikinn fyrir umhverfisvænar lausnir og gert þær samkeppnishæfar. Kolefnisgjald á að vera neyslubreytandi skattur. Ef slík skattlagning á að virka sem skyldi hlýtur það að vera eðlileg krafa að hún leggist í fyrsta lagi jafnt á alla kolefnislosun sem við höfum skuldbundið okkur til að draga úr fyrir árið 2030 og í öðru lagi að tekjurnar verði nýttar til að greiða fyrir minnkun á losun í sama hlutfalli.

Lífrænn úrgangur á leið í urðun er efni á villigötum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vistorku ehf.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu