Fara í efni

Vísindaskólinn - Er orkan endalaus?

Vísindaskólinn - Er orkan endalaus?

Vistorka tók þátt í Vísindaskóla Háskólans á Akureyri nú í lok júní mánaðar. Skólinn er ætlaður börnum á aldrinum 11–13 ára og veitir þeim innsýn í vísindi líðandi stundar og tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn. Þemað þetta árið í orkuhluta námskeiðsins var: Er orkan endalaus? Að dagskránni komu Landsvirkjun, Orkusetur, Landsnet og Vistorka.

Dagskráin byrjaði í Háskólanum á Akureyri þar sem Landsvirkjun sá um að sýna nemendum hvað orka er og hvaðan hún kemur. Farið var yfir endurnýjanlega og óendurnýjanlega orku og af hverju mikilvægt er að orkan okkar sé endurnýjanleg. Einnig var farið yfir þær leiðir sem nýttar eru til að beisla orkuna og hvernig hægt er að hámarka öryggi í framleiðslu hennar. Í HA hafði verið komið fyrir sýningarvirkjun til að leyfa nemendum að sjá hvernig tæknin virkar þegar hreyfiorka er nýtt til að framleiða rafmagn.

Þá tók Orkusetur við og farið var yfir af hverju við verðum að skipta um orkugjafa og hvaða leiðir við erum að fara til að ná því markmiði að verða kolefnishlutlaus.

Eftir hádegismat fór hópurinn í gönguferð frá HA og að Orkugarði (Norðurorku) þar sem gengið var framhjá Glerárvirkjun og skoðaðir nýorkuinnviðir og samgöngutæki hjá Norðurorku, sem hefur verið að skipta út orkunotkun á farartækjum sínum (rafmagns-, metan- og lífdísiltæki).

Þegar í Orkugarð var komið tók Landsnet við nemendum og fóru yfir hvernig við flytjum orkuna á milli staða. Farið var yfir hvað allar þessar línur sem þú sérð um landið gera og hvernig orkan kemst frá virkjuninni og inn í símann þinn. Nemendur fengu svo tíma til að prufa spil þar sem þau lærðu hvernig rafmagnið verður til, hvernig það virkar og hvernig það flyst milli staða. Voru nemendur mjög áhugasamir og ekki voru allir til í að leggja frá sér spilin þegar tími var kominn til að halda á næsta stað.

Þá tók við gönguferð frá Orkugarði aftur niður í Háskólann á Akureyri þar sem Vistorka sá um að enda daginn með því að fara yfir nýja heimasíðu Vistorku og fjalla um umhverfis- og loftslagsmál. Einnig var farið yfir hvaða grænu lausnir er unnið að á Akureyri og hvað nemendur geta sjálfir gert hvað varðar breyttar ferða- og neysluvenjur. Í lokin fóru nemendur í leik þar sem nýtt var reiknivélin Bílaeinkunn á heimasíðu Orkuseturs og keppst við að finna hvaða bíll á bílastæði Háskólans mengaði mest og hvaða bíl mengaði minnst. Þetta vakti mikla lukku og voru nemendur ótrúlega naskir á hversu mikið bílarnir menga. Auk þess mundu langflestir nemendur bílnúmerið á fjölskyldubílnum og höfðu gaman af því að skoða hvaða bílaeinkunn þeirra bíll fékk.

Eftir daginn höfðu nemendur fengið góða yfirsýn yfir orkumál á Íslandi og ættu að geta svarað rannsóknarspurningunni: Er orkan endalaus?