Fara í efni

Akureyrarbær

Akureyrarbær hefur sett sér það markmið að bærinn verði kolefnishlutlaus. Undanfarin ár hefur verið unnið markvisst að þessu markmiði með ýmsum hætti.

Ljóst var frá upphafi að til að ná kolefnishlutleysi þarf Akureyrarbær að leita ýmissa ólíkra leiða og hafa grænar lausnir að leiðarljósi í starfsemi bæjarins.

Nú er unnið að fyrstu Umhverfis- og loftsslagsstefnu Akureyrarbæjar, sem mun m.a. snúa að losun frá öllu sveitarfélaginu sem og rekstri Akureyrarbæjar.

Grænar lausnir Akureyrarbæjar

Á síðustu árum hefur Akureyrarbær sýnt frumkvæði í umhverfismálum og innleitt mikið af grænum lausnum fyrir íbúa bæjarins.

Allt eru þetta lausnir þar sem hringrásarhagkerfi er haft að leiðarljósi til að auka sjálfbærni og nýtingu auðlinda þegar kemur að rekstri bæjarins.

Upplýsingar á ensku

Flokkun

Í hverfum bæjarins geta íbúar losað sig við flokkaðan úrgang á grenndarstöðvum og þannig komið endurvinnanlegum úrgangi í réttan farveg.  

Molta - lífrænn úrgangur

Árið 2009 tók jarðgerðarstöðin Molta til starfa í Eyjafirði. Til að ná settum markmiðum um að minnka magn úrgangs til urðunar á svæðinu var ákveðið að úthluta hverju heimili grænni tunnu undir lífrænan úrgang sem Molta tekur við og breytir í næringarríkan áburð.

Orkey - Lífdísilframleiðsla

Árið 2011 hóf fyrirtækið Orkey framleiðslu á lífdísli úr notaðri matarolíu sem er safnað frá heimilum, veitingastöðum og fyrirtækjum víða um land.

Metan

Frá árinu 2014 hefur metan eldsneyti verið framleitt úr gamla urðunarstaðnum á Akureyri. Akureyrarbær hefur svo farið þá leið að nýta metanið meðal annars á strætóbifreiðar og ferlibíla bæjarins. 

Frítt í strætó 

Frá árinu 2006 hefur verið frítt í strætó á Akureyri og er það gert til að auka almenningssamgöngur bæjarbúa og þar með, lífsgæði þeirra.

Rafmagnsbílar

Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla er að finna víðsvegar um bæinn og bifreiðar sem ganga fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum hafa forgang að bílastæðum bæjarins.

 

 

Umhverfis- og samgöngustefna Akureyrarbæjar var samþykkt 20. desember 2016. Markmið stefnunnar er að Akureyrarbær vinni stöðugt af framsækni og metnaði bæði í umhverfis- og samgöngumálum bæjarins og verði áfram í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum.

Smelltu Hér til að opna Sér vef um Loftslagstölur Akureyrarbæjar

Samkvæmt stefnunni ber að halda utanum tölulegar upplýsingar um umhverfismál bæjarins svo sem vistvæna orkugjafa, samgöngur, loftgæði og úrgang. Hér hafa því verið teknar saman lykiltölur í þeim efnum fyrir síðustu ár og hafa þær verið settar fram með aðgengilegum hætti til að auka aðhald og gera árangur í umhverfismálum aðgengilegan. Vonast er til að þessar tölur hvetji bæjarbúa til að gera enn betur og hjálpast að við að ná markmiðum bæjarins um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Unnið er að nýrri Umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar sem mun gilda til ársins 2030, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir næstu fjögur ár.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Akureyrarbær er aðili að Global Covenant of Mayors for Climate & Energy (GCoM), sem er sameiginleg yfirlýsing borgarstjóra um heim allan um vilja þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, styrkja viðnámsþol gegn loftslagsbreytingum, birta tölulegar upplýsingar um frammistöðu viðkomandi borga í loftslagsmálum og setja markmið um enn betri frammistöðu.

Akureyrarbær er eitt þriggja sveitarfélaga á Íslandi sem gerst hafa aðilar að GCoM. Hin eru Reykjavíkurborg og Hveragerðisbær. Öll aðildarsveitarfélögin eiga það sameiginlegt að vilja vera í forystu í loftslagsmálum, vilja stuðla að fjárfestingum opinberra aðila og einkageirans í loftslagsvænum lausnum og vilja styðja við metnaðarfullt samstarf svæða í anda sjálfbærrar þróunar. Með þessu vilja sveitarfélögin sýna fram á að staðbundnar aðgerðir geti haft marktæk áhrif á heimsvísu.

Losunarbókhald 2018 Losunarbókhald 2019

 

 

 

 

 

Umhverfis- og samgöngustefna Akureyrarbæjar var lögð fram fyrir bæjarstjórn 20. desember 2016 og var samþykkt samhljóða.

Markmið stefnunnar er að Akureyrarbær vinni stöðugt af framsækni og metnaði bæði í umhverfis- og samgöngumálum bæjarins og verði áfram í fremstu röð þegar kemur að umhverfismálum.

Umhverfis- og samgöngustefna Akureyrarbæjar 2016

Unnið er að nýrri Umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar sem mun gilda til ársins 2030, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir næstu fjögur ár. Drög að stefnunni voru lögð fram á fundi Umhverfis- og mannvirkjaráðs 13. nóvember 2020. Fundargerð - 5. liður.

 

 

Norðurorka er eitt öflugasta orku- og veitufyrirtæki Íslands. Orkuöflun er nægjanleg og byggir á sjálfbærum auðlindum. Langtímaauðlindir eru tryggðar með rannsóknum og unnið er markvisst gegn sóun auðlinda og verndun vatnsbóla. 

Norðurorka hf. rekur hitaveitu í átta sveitarfélögum við Eyjafjörð og í Þingeyjarsveit, vatnsveitu í fimm sveitarfélögum og rafveitu og fráveitu á Akureyri.

Rafveita

Rafmagn er orðinn órjúfanlegur þáttur í daglegu lífi. Flestum þykir okkur rafmagnið vera sjálfsagt mál og veltum sjaldan fyrir okkur dreifikerfi rafmagns sem slíku. Listinn yfir tæki og búnað sem gengur fyrir rafmagni er óendanlega langur og flest eigum við erfitt með að sjá fyrir okkur að samfélagið geti gengið eðlilega án rafmagns.

Norðurorka sér um dreifingu á rafmagni á Akureyri. Í dreifingu raforku felst að taka við raforkunni frá flutningsfyrirtæki í svonefndum aðalspennistöðvum og koma rafmagninu þaðan eftir strengjum í minni dreifistöðvar. Rafmagnið er svo leitt eftir strengjum í svonefnda götuskápa og að lokum eftir heimtaug inn í hús viðskiptavinarins.

Meira um raforku á vef Norðurorku

Hitaveita

Flestum þykir okkur sjálfsagt að skella okkur í heitt bað eða sturtu og þegar við ferðumst erlendis hugsum við sjaldnast um það með hvaða hætti vatnið verður heitt. Er um að ræða jarðhitavatn eða er vatnið hitað upp með gasi, kolum eða rafmagni?

Íslendingar eru mjög lánsamir að hafa aðgang að þeirri einstöku auðlind sem jarðhitavatn er, en um 90% heimila landsins eiga kost á að nýta sér það.

Norðurorka rekur hitaveitur í sex sveitarfélögum í Eyjafirði og Þingeyjarsveit og eru vinnslusvæði hitaveitu ellefu talsins.

Meira um hitaveitu á veF Norðurorku

Vatnsveita

Vatn er án efa ein verðmætasta auðlind jarðar. Á Íslandi búum við svo vel að hafa aðgang að afar góðu og heilnæmu köldu grunnvatni til neyslu án þess að þurfi að meðhöndla það áður.

Eitt af stóru verkefnum Norðurorku er að tryggja nægilegt magn af hreinu og góðu neysluvatni til einstaklinga og fyrirtækja á veitusvæðinu. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur eftirlit með neysluvatninu og sömuleiðis er vinnsla og dreifing vöktuð í samræmi við vottað gæðakerfi Norðurorku.

Norðurorka rekur vatnsveitur á Akureyri, í Hrísey og Grímsey, Svalbarðsstrandarhreppi og að hluta í Eyjafjarðarsveit og í Hörgársveit.

Meira um vatnsveitu á vef Norðurorku.

Fráveita

Við leiðum sjaldan hugann að fráveitunni þrátt fyrir að við vildum trúlega aldrei vera án hennar.

Fráveitukerfi Akureyrar er viðamikið og markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu þess, m.a. með byggingu fjölda dælustöðva og yfirfallsstöðva og lagningu þrýstilagnar meðfram strandlengjunni að nýrri útrás við Sandgerðisbót.

Norðurorka hf. yfirtók fráveitu Akureyrar með samningi þar að lútandi og miðaðist yfirtakan við áramótin 2013/2014. Auk þess rekur Norðurorka fráveitu í Hrísey og Grímsey og að hluta í Hörgársveit.

Meira um fráveitu á vef Norðurorku.

 

UMHVERFISSTEFNA NORÐURORKU

Aðgerðir Norðurorku til að minnka kolefnislosun

Fyrirtækið vinnur gagngert að því að draga úr því kolefni sem það losar út í andrúmsloftið. Eftirfarandi eru dæmi um aðgerðir til minnkunar kolefnislosunar:

Bílar Norðurorku

Við endurnýjun á bílaflota fyrirtækisins er ávallt kannaður möguleikinn á vistvænum bílum sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til bílanna hverju sinni. Í lok árs 2020 voru um 43% bílaflotans knúin af metani eða rafmagni.

Flokkun sorps

Starfsfólk Norðurorku hefur fengið kynningu á flokkun sorps og flokkunarílátum hefur verið komið upp víðsvegar um fyrirtækið. Á árunum 2015 - 2020 hefur hluti flokkaðs sorps vegna starfsemi Norðurorku farið úr því að vera 62% upp í 85%.

Rafhjól

Norðurorka hefur í tvígang boðið starfsfólki sínu styrk til kaupa á rafmagnshjólum til einkanota. Fjöldi starfsfólks hefur nýtt tækifærið og fjárfest í rafmagnshjóli sem er vissulega kærkomið í bæjarfélagi eins og Akureyri þar sem mikill hæðamismunur er. Hluti starfsfólks kemur hjólandi til vinnu allan ársins hring sem dregur úr kolefnislosun.  

Samgöngustyrkur til starfsfólks

Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til að nýta sér vistvænan og heilssamlegan samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnu. Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en einkabifreið, t.d. ganga, reiðhjól eða almenningssamgöngur.
Greiðsla samgöngustyrks er í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. 

Framleiðsla á lífdísil

Norðurorka á Orkey ehf. sem rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri. Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarfeiti frá veitingahúsum og ýmsum öðrum fitu- og olíuríkum úrgangi. Vinnsla félagsins er mikilvægur þáttur í að draga úr úrgangi sem annars gæti endað í fráveitukerfum bæjarins eða í urðun.

Vistorka ehf.

Vistorka er verkefnastofa eigenda Norðurorku á sviði umhverfismála. Unnið er með lausnir sem nýtast til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust samfélag þar sem stóra verkefnið er orkuskipti í samgöngum.

 

Gróðursetning trjáa

Í upphafi árs 2020 átti Norðurorka 54 hektara af skógi sem binda koltvísýring. Gróðursetningaverkefni fyrirtækisins hefur verið endurvakið og í samvinnu við Akureyrarbæ er gróflega búið að kortleggja möguleg gróðursetningarsvæði Norðurorku. Búið er að planta um 550 víðitrjám á metantökusvæði Norðurorku og unnið verður áfram að skógræktaráætlun Norðurorku til komandi ára eða áratuga. 

Græna trektin

Í samvinnu Norðurorku, Orkuseturs, Gámaþjónustu Norðurlands og Orkeyjar var farið í markvissa söfnun á notaðri matarolíu frá heimilum með „Grænu trektinni“, auk þess sem farið var í frekari söfnun á steikingarolíu frá veitingahúsum og mötuneytum. Þetta átak skilaði sér í um 50% aukningu á matarolíu til lífdísilgerðar hjá Orkey auk þess sem minni fita var sett í fráveitukerfi bæjarins.

Metanframleiðsla- föngun hauggass

Gömlu sorphaugarnir á Glerárdal voru nýttir frá 1972 til ársins 2009 og eru þeir í eðli sínu óflokkaðir haugar þ.e. öllu var blandað saman. Hauggas myndast með tímanum, við loftfirrtar aðstæður, þar sem metaninnihald er um 57%.

Hauggas sem fer beint út í andrúmsloftið er um 23x skaðlegra en CO2 sem myndast við bruna metans, t.d. í bílvél. Þess vegna er nýting á því metani, sem annars myndi streyma beint út í andrúmsloftið, mikill ávinningur fyrir umhverfið og einnig þjóðhagslega hagkvæmt að því leyti að fyrir hvern Nm3 metans sem brennt er í vél sparast um einn lítri af innfluttu jarðefnaeldsneyti.

Fjórir metanknúnir ferlivagnar og þrír strætisvagnar eru í rekstri hjá Akureyrarbæ ásamt minni metanbílum. Norðurorka er með 15 metanbíla í rekstri og fer þeim fjölgandi.

Metandælustöð á Akureyri. Strætó og þrír bílar.

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla

 Árið 2017 fékk Vistorka styrk úr Orkusjóði upp á 26 milljónir króna til að taka þátt í eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu, í samvinnu við sveitarfélög á öllu Norðurlandi. Vistorka áframsamdi við Orku náttúrunnar um útfærslu og nú hafa Orka náttúrunnar og Ísorka sett upp tíu hleðslustöðvar fyrir rafbíla víðsvegar á svæðinu.

Fallorka

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Öll rafmagnsframleiðsla Fallorku er úr vatnsafli en félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þar af tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2020 varð orkuframleiðslan 44 GWst.

Fallorka

Eimur

Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf Eims er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri og auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að nýta enn frekar hliðarafurðir orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Eimur ehf.

Umhverfismál fráveitu

Hreinsistöð fráveitu sem tekin var formlega í notkun síðla árs 2020 er svo sannarlega jákvætt skref í umhverfismálum Norðurorku og fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð. Í hreinsistöðinni fer fram "fyrsta þreps hreinsun" þ.e. að allir fastir hlutir í fráveituvatninu eru síaðir frá með þriggja millimetra þrepasíun áður en fráveituvatnið er veitt út í fjörðinn. 

 

 

Fallorka á og rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir í Eyjafirði og selur aðeins græna vottaða raforku. Hér má sjá yfirlýsingu Orkustofnunnar þess efnis. Fallorka ehf. er að fullu í eigu Norðurorku.

Fallorka stendur nú að rannsóknum á fleiri virkjunarkostum í Eyjafirði, meðal annars í Djúpadal, þar sem félagið hefur fengið formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun. Þá hefur félagið kannað möguleika á beislun vindorku á láglendi við Eyjafjörð.

Vatnsafl

Fallorka á og rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir sem eru tengdar beint inn í dreifikerfi Norðurorku á Akureyri. Tvær virkjanir eru í Djúpadalsá í Eyjarfirði og tvær eru í Glerá sem rennur í gegnum Akureyri. Fallorka er með baksamning við stóra og öfluga samstarfsaðila sem eru Landsvirkjun og Landsnet, til að tryggja afhendingu raforku til viðskiptavina um allt land.

Uppsett afl þessara fjögurra virkjana er samtals um 6,5 MW og árleg framleiðsla um 44 GWst. Eigin framleiðsla Fallorku 44.000.000 kWst samsvarar orkunni sem um 20.000 rafbílar nota til að keyra að meðaltali 12.000 km á ári eða samtals um 240.000.000 km. Þessir 240 milljón kílómetrar sem verða eknir á rafmagni frekar en olíu mun draga úr losun CO2 um 50.000 tonn á ári og orkukostnaður bíleigenda mun lækka um 4 milljarða króna á ári.

Vindmyllur og sólarsellur

Fallorka stefnir á uppsetningu á vindmyllum og sólarsellum í Grímsey sumarið 2021. Verkefnið er unnið í samstarfi við Vistorku og Orkusetur með stuðningi úr Evrópuverkefninu SMARTrenew og Orkusjóði. Í fyrstu er gert ráð fyrir að setja upp tvær 6 kW vindmyllur (frá SD Wind Energy) og 12 kW sólarsellur (frá IBC Solar) rúmlega 50m2 að stærð við Múla. Einnig er ætlunin að setja þar upp litla 160 W vindmyllu frá IceWind. Upplýsingar um framleiðsluna verða aðgengilegar á vefsíðu um leið og framleiðslan hefst.

Orkuframleiðsla og -notkun í Grímsey er í dag byggð á ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti. Heildarolíunotkun er um 400 þúsund lítrar á ári, enda er olía bæði notuð til raforkuframleiðslu og til húshitunar. Ætla má að losun GHL vegna orkunotkunar í Grímsey sé um 1.000 tonn CO₂ á ári. Ofan á þetta bætist svo eldsneytisnotkun farartækja og fiskibáta. Verkefni Fallorku mun minnka olíunotkun um 20 þúsund lítra á ári og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 tonn á ári. Ef reynslan af þessum nýju kerfum verður góð er markmiðið að auka hlut grænna orkugjafa enn frekar í náinni framtíð.

Hér má lesa nánar um málið í frétt af vef Akureyrarbæjar

Fallorka hefur látið meta svæði á láglendi í Eyjafirði sem gætu hentað til raforkuvinnslu með vindorku. Svæði í austanverðum Hörgárdal er talið vænlegasti kosturinn af þeim svæðum sem voru til athugunar. Áætlað er að hægt sé að virkja allt að 40 MW á svæðinu. Virkjunarkosturinn hefur verið nefndur Vindheimavirkjun og fengið númerið R4305A í Rammaáætlun 4. Hér má sjá skýrslu Eflu á vef Orkustofnunar

Hleðslustöðvar fyrir rafbíla

Fallorka á og rekur eina 2x22 kW hleðslutöð við Ráðhús Akureyrar. Í samstarfi við Vistorku er stefnt að opnun þriggja nýrra 2x22 kW stöðva í júní 2021. Stöðvarnar verða, við Sundlaug Akureyrar, Amtsbókasafnið og bætt verður annarri stöð við Ráðhúsið. Stöðvarnar eru frá Ísorku og eru rafbílaeigendur hvattir til að sækja app Ísorku til að nýta sér stöðvar, en einnig er hægt að greiða beint með greiðslukorti við stöðvarnar.

Fallorka