Fara í efni

Bætt nýting á moltu

Brynjar Skúlason hjá Skógræktinni að segja sögu birkiplöntunnar sem ráðherra plantaði í tilefni dags…
Brynjar Skúlason hjá Skógræktinni að segja sögu birkiplöntunnar sem ráðherra plantaði í tilefni dagsins.

Bætt nýting á moltu

Ákveðið hefur verið að ráðast í tilrauna- og átaksverkefni um nýtingu moltu í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Meðal annars á að setja aukinn kraft í gróðursetningu í Græna trefilinn ofan Akureyrar og leggja grunn að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Guðmundur Haukur Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku undirrituðu samkomulag um samstarfsverkefni í morgun. Þetta er hluti af aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum sem hefur verið flýtt vegna Covid-19 en með landgræðslu og skógrækt er stuðlað að aukinni bindingu kolefnis.

Átakið er í raun þríþætt og snýst um að nota moltu til skógræktar og landgræðslu í umhverfi Akureyrar, til landgræðslu á Hólasandi og við repjurækt í Eyjafirði.

Við undirritun samkomulagsins í morgun voru viðstaddir fulltrúar þeirra sem að verkefninu standa. Að undirritun lokinni gróðursetti ráðherra birkiplöntu í garðinn við Gömlu-Gróðrarstöðina. Þetta er vefjaræktuð rauðblaða birkiplanta af nýju yrki sem Þorsteinn Tómasson erfðafræðingur hefur ræktað og kallast 'Hekla'. Að sjálfsögðu var notuð molta við gróðursetninguna, bæði blandað saman við jarðveginn í holunni og dreift í kringum plöntuna.

Sjá nánar á vefsíðum Akureyrarbæjar og Skógræktarinnar