Fara í efni

Prufukeyrsla Strætóskólans

Prufukeyrsla Strætóskólans

Í síðustu viku hófst prufukeyrsla Strætóskólans á Akureyri þar sem 5. bekkur í Naustaskóla prufaði skólann.

Markmið verkefnisins er að kenna grunnskólabörnum á aldrinum tíu til ellefu ára á strætó svo þau geti orðið sjálfstæðir notendur. Nemendur læra að skipuleggja ferðir sínar, lesa úr leiðarkerfum og tímatöflum auk þess sem þau fá fræðslu um áhrif einkabílsins á umhverfið og hvað ávinnst með notkun almenningssamgangna.

Stefnt er að því að allir fimmtu bekkir í grunnskólum Akureyrar taki námskeiðið á næsta skólaári og fleiri skólar utan Akureyrar taki upp verkefnið í kjölfarið.

Fyrsta ferðin gekk vel

Prufukeyrsla nemenda í Naustaskóla gekk vel. Bekknum var skipt upp í tvo hópa. Annar hópurinn fór frá Naustaskóla og í KA heimilið þar sem þau fengu kynningu á nýja gervigrasvellinum. Hinn hópurinn fór frá Naustaskóla og í Sundlaug Akureyrar.

 

Rannsókn í strætó

Á meðan á ferðinni í strætó stendur gera nemendur litla rannsókn og hafa því ýmis hlutverk. Nemendur þurfa að skrá niður meðal annars hversu margir fullorðnir, unglingar og börn eru í strætó. Einnig þurfa þau að telja sætafjölda í vagninum og fjölda stoppistöðva sem vagninn fer framhjá og stoppar við. Þá vinna nemendur tímaáætlun á ferðalaginu, einn nemandi í hópnum fær því hlutverk tímavarðar sem tekur tímann fyrir ákveðna hluta ferðarinnar.

Í prufukeyrslunni í síðustu viku voru nemendur svo uppteknir af talningu og skráningu í rannsókninni að það gleymdist að passa að einn nemandi hefði það hlutverk að ýta á takkann, svo strætó keyrði fram hjá stoppistöðinni. Það kom þó ekki að sök þar sem stutt var í næstu stoppistöð og nægur tími á áfangastað fyrir smá rölt.

     

Auðvelt að þekkja metan strætó

Nemendur þurftu líka að skrá niður hvort vagninn sem þau fara með gangi fyrir olíu, metani eða rafmagni. Voru nemendurnir mjög fljótir að átta sig hversu auðvelt það er að þekkja metan vagnana þar sem þeir eru með hólf fyrir metanið á þakinu.

Þegar nemendur koma til baka í skólann vinna þau úr þeim upplýsingum sem þau skráðu niður á ferðalaginu og reikna meðal annars út hversu miklu meira CO2 hefði losnað út í andrúmsloftið ef allir sem voru í strætó hefðu farið á einkabíl.