Fara í efni

Rafhjól er ódýrt umhverfisvænt samgöngutæki

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 04. október 2017

Rafhjól er ódýrt umhverfisvænt samgöngutæki

Norðurorka hefur undanfarin ár hvatt starfsfólk sitt til þess að ferðast til og frá vinnu á vistvænan máta og hefur því til stuðnings boðið starfsmönnum sínum upp á samgöngustyrk að uppfylltum skilyrðum RSK. Í sumar tók starfsfólk Norðurorku sig saman um hópkaup á rafhjólum en keypt voru 30 reiðhjól af gerðinni Cube sem verslunin TRI í Reykjavík selur (www.tri.is). Norðurorka er jafnframt aðili að Loftslagsyfirlýsingu Festu og hefur félagið undanfarin ár verið að skipta út eigin bílaflota fyrir metan- og rafbíla ásamt því að kaupa tvö rafhjól til notkunar í starfsemi sinni.

Það gilda svipuð lögmál um rafhjól og bíla, gæðin kosta og þægindin skipta miklu máli. Í danska neytendablaðinu Tænk má finna gæðakönnun á rafhjólum. Þar kemur fram að árið 2016 voru rafhjól 11% af hjólasölunni það árið en var 4% árið 2011. Í könnun blaðsins á gæðum rafhjóla eru metin atriði eins og; gerð mótors, dempun, samspil mótors og bremsa, hvernig er að taka af stað með aðstoð mótors, upplýsingaskjár og hvernig er að hjóla án mótorsins. Einnig eru metin ýmis atriði sem snúa að rafhlöðunni eins og; staðsetning, umgengni, þyngd og drægni, svona til að nefna nokkur atriði sem rétt er að hafa í huga fyrir þá sem hyggja á rafhjólakaup. það sem vóg hvað þyngst í dómi blaðsins er gerð mótors og staðsetning hans á hjólinu.

Eftir um mánaðar reynslu (250 km) þá get ég staðfest fyrir hönd okkar sem erum á myndinni, að hjólin standa vel undir okkar væntingum. Það er mjög auðvelt að komast leiðar sinnar á Akureyri á rafhjólum og athyglisvert að finna að brekkurnar eru ekki lengur farartálmi. Að mörgu leyti finnst mér auðveldara að ferðast á rafmagnshjóli en á bíl.

Veturinn framundan verður auðvitað áskorun, en ég hef sjálfur áður prufað að vera með nagladekk á hefðbundnu fjallahjóli án vandræða. Ég mun því skrifa nýjan pistil um reynsluna af rafhjóli á nagladekkjum með vorinu.