Fara í efni

Söfnun á úrgangslífolíu frá eldhúsum

Söfnun á úrgangslífolíu frá eldhúsum

Nýjasta átakið í endurvinnslu og umhverfisvernd á Akureyri er "græna trektin," sérhönnuð trekt til að safna úrgangsolíu sem til fellur við matargerð. Lífræn olía sem þannig safnast verður endurunnin og notuð sem eldsneyti fyrir strætisvagna.
 

Græna trektin er ekki flókið verkfæri, en notkun hennar getur haft mikil áhrif. Norðurorka, Orkusetur og Vistorka, hafa nú í sameiningu keypt 3000 svona trektir sem dreift verður til áhugsamra íbúa á Akureyri.

Trektin er einfaldlega skrúfuð á plastflösku og þá er hægt að byrja að safna olíu sem gengur af við matargerðina og koma henni í endurvinnslu. Guðmundur H. Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorko, segir að setja megi alla olíu í trektina sem kalla megi lífolíu, s.s. ólífuolíu, steikingarolíu hvers konar, smjör og feiti. „Þetta er náttúrulega afskaplega einfalt fyrirbæri og þægilegt í umgengni. Algerlega þétt og engin lykt eða neitt,“ segir Guðmundur.  

Mikið af olíu fer í fráveitukerfi bæjarins og það er ekki síst ástæðan fyrir þessu átaki.
„Og það varðar bæði náttúrulega heimili og fyrirtæki," segir Baldur Dýrfjörð, forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku. „Það er ótrúlega algengt að fitunni er bara sturtað beint ofan í vaskinn, eða jafnvel salernin. Við höfum heyrt dæmi um það að veitingastaðir eða stór eldhús feri með potta eða stórar pönnur og hreinlega setji í salernin.“ 

Guðmundur segir Gámaþjónustuna taka við olíunni sem safnast. Fyrirtækið Orkey tekur svo við henni og framleiðir úr henni lífdísil, sem hugmyndin er að nýta til að knýja strætisvagna bæjarins.

- Frétt í kvöldfréttum Ruv föstudaginn 6. nóvember 2015