Fara í efni

Umhverfisspjall Vistorku

Katla Eiríksdóttir
skrifar 17. janúar 2023

Umhverfisspjall Vistorku

Janúar er oftar en ekki mánuðurinn þar sem við horfum með gagnrýnum augum á árið sem var að líða og setjum okkur markmið fyrir það nýja. Áramótaheit geta verið fjölbreytt; þau geta snúið að fjölskyldu, vinum, heilsu eða fjárhag, svo eitthvað sé nefnt. En er ekki tilvalið að horfa með gagnrýnum augum á neysluhegðun okkar og setja okkur umhverfisvæn áramótaheit? Starfsmaður Vistorku spurði nokkra Akureyringa út í árið sem var að líða og fékk að heyra hvort einhver umhverfisvæn áramótaheit hefðu verið punktuð niður.

Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri Rauða Krossins

Gerðir þú eitthvað á síðasta ári til að minnka umhverfisáhrif þín?

Ég hef á undanförnum ca 15 árum gert heilmikið til að draga úr umhverfis- og kolefnaspori mínu. Ég hef farið flestra minna ferða gangandi eða á rafhjóli frá árinu 2014, hef minnkað mjög verulega neyslu á dýraafurðum, hef takmarkað mjög ferðalög til útlanda, hugsa mig mjög vel um áður en ég kaupi nýja hluti eða föt og hef kolefnisjafnað allar flug- og bílferðir frá 2016 og ýmislegt fleira. Ég náði svo því markmiði nú í lok árs 2022 að gæða mér á skordýramat í fyrsta sinn. Ég hlakka mikið til þegar úrval af skordýramatvörum verður orðið meira og vona að það gerist á árinu 2023.

Settir þú þér eða ætlar þú að setja þér umhverfisvæn nýársheit? Ef svo er, hver eru þau?

Helsta markmiðið mitt núna er í raun að koma í veg fyrir að vistspor mitt stækki og ég bíð spennt eftir að það verði enn auðveldara og þægilegra fyrir fleiri að stunda vistvænan lífsstíl.

Hvað telur þú að sé mikilvægast fyrir Akureyringa að tileinka sér varðandi umhverfismál á nýju ári og af hverju?

Ég held það sé mikilvægast fyrir Akureyringa, eins og annað fólk, að venjast tilhugsuninni um að minnka vistspor sitt og venja sig á að gera litlar breytingar. Það er nefnilega ekki gott fyrir geðheilsuna að vita að breytingar séu óhjákvæmilegar og sitja bara og bíða eftir að þær verði. Mun betra er að hver taki stjórnina á breytingaferli sjálfs sín. Svo er bónus að nánast hvert minnkað vistspor er spor til betri heilsu því rannsóknir hafa sýnt að of mikil neysla hefur slæm áhrif á geðheilsuna auk þess sem dagleg hreyfing og útivera er hin besta heilsubót.

Eyrún Gígja Káradóttir, verkefnastjóri hjá Orkustofnun

Gerðir þú eitthvað á síðasta ári til að minnka umhverfisáhrif þín?

Ég skipti út 7 manna dísiljeppanum mínum fyrir 5 manna rafmagnsbíl auk þess sem ég fjárfesti í rafmagnshjóli.

Settir þú þér eða ætlar þú að setja þér umhverfisvæn nýársheit? Ef svo er, hver eru þau?

Mikið verður um utanlandsferðir á árinu sem er að koma og hef ég sett mér markmið um að kolefnisjafna þær allar og meira til í skógræktun sem ég hef aðgang að. Einnig ætla ég að reyna að kaupa ekki nýja flík á árinu 2023.

Hvað telur þú að sé mikilvægast fyrir Akureyringa að tileinka sér varðandi umhverfismál á nýju ári og af hverju?

Nú þegar ný lög um úrgangsmál taka gildi held ég að það verði svona helst innkaup og nýr og bættur hugsunarháttur hvað þau varðar sem mest munu breytast á nýju ári. Fleiri munu afþakka fjölpóst og nýta sér vörur (t.d. hreinsivörur) sem hægt er að kaupa áfyllingar á og losna þar með við aukaumbúðir. Viðskiptavinir munu því í auknum mæli ekki bara spá í verð og gæði þeirra vara sem verið er að kaupa heldur líka í magn umbúða og hversu auðvelt er að flokka þær.

Ísak Már Jóhannesson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Gerðir þú eitthvað á síðasta ári til að minnka umhverfisáhrif þín?

Stærsta umhverfisákvörðunin sem ég tók á síðasta ári var að leggja nagladekkjunum. Ég hef sjálfur alltaf verið frekar skeptískur um gæði naglalausu vetrardekkjanna en eftir að hafa heyrt af góðri reynslu úr ýmsum áttum ákváðum við hjónin að taka stökkið og sjáum ekki eftir því. Dekkin hafa farið fram úr mínum björtustu vonum og eru í rauninni miklu betri í öllum aðstæðum sem komið hafa upp en gömlu nagladekkin.

Settir þú þér eða ætlar þú að setja þér umhverfisvæn nýársheit? Ef svo er, hver eru þau?

Það er tvennt sem ég vil leggja áherslu á á nýju ári, þó það séu kannski ekki eiginleg nýársheit. Í fyrsta lagi ætla ég að hafa meira grænmeti í matinn. Ég sé yfirleitt um matseldina á heimilinu og á þessu ári ætla ég að hafa fjölbreyttari mat og leggja áherslu á vistkerafæði. Í öðru lagi höfum við fjölskyldan ákveðið að ferðast innanlands í ár. Við tókum ákvörðun nýlega að fara í stærri og lengri utanlandsferðir á tveggja til þriggja ára fresti og sleppa helgarferðunum. Svo nú í sumar ætlum við að ferðast um kunnuglegar slóðir, heimsækja vini um allt land, fara í útilegu og sumarbústað. Ég hef á tilfinningunni að veðrið verði með allra besta móti um allt land í sumar.

Hvað telur þú að sé mikilvægast fyrir Akureyringa að tileinka sér varðandi umhverfismál á nýju ári og af hverju?

Það sem ég tel alla geta gert er að hafa opinn hug og finna leiðir til að njóta lífsins á grænni hátt. Það er fullt af einföldum hlutum sem eru góðir fyrir heilsuna, veskið og umhverfið í senn. Til dæmis að ganga eða hjóla meira, kaupa notaða hluti og borða meira grænmeti. Margt smátt gerir eitt stórt.

 

Við þökkum þessum Akureyringum fyrir skemmtileg svör í þessu fyrsta Umhverfisspjalli Vistorku.