Fara í efni

Grænar greinar fyrir jólin – hluti III

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 11. desember 2015

Grænar greinar fyrir jólin – hluti III

Sorpa hóf framleiðslu á metani frá urðunarstaðnum í Álfsnesi fyrir meira en áratug síðan. Það er því komin löng reynsla á höfuðborgarsvæðinu af þessu innlenda vistvæna eldsneyti. Í dag er rétt rúmlega ár síðan byrjað var á Akureyri að framleiða metan sem eldsneyti á bíla. Metanið er unnið úr hauggasi sem myndast við niðurbrot á því lífræna efni sem í áratugi safnaðist fyrir á urðunarstað Akureyringa á Glerárdal. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að framleiða metan úr haugnum á 600-1.000 fólksbifreiðar. Auk þess er verið að ljúka við könnun á því að framleiða metan úr mykju frá landbúnaði í Eyjafirði. Fyrstu niðurstöður sýna að hægt sé að framleiða metan fyrir 1.500-2.000 fólksbifreiðar miðað við það magn mykju sem fellur til í dag. Það mun reyndar fleira vinnast með því verkefni því bændur mun fá tilbaka mun betri áburð en ella og þannig getað notað minna af tilbúnum áburði, auk þess sem verkefnið mun auka og bæta framleiðslu á moltunni.

Framboð af metanbílum hefur aukist mikið á síðustu tveimur árum og verð lækkað. Allir metanbílar eru einnig með bensíntank þannig að það er lítil hætta á því að verða strandaglópur einhvers staðar á metanbíl, auk þess sem hægt er að keyra óhindrað á metani á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Unnið er að því þessa dagana að festa kaup á metanstrætisvögnum og fá metansorpbíla til Akureyrar. Á árinu 2015 hafa nú þegar vel yfir 200 metanbílar verið nýskráðir á Íslandi. Metan hefur því sýnt sig og sannað sem raunverulegur kostur í staðinn fyrir bensín eða dísilolíu. Eldsneytiskostnaður er þar að auki um 25% lægri miðað við jarðefnaeldsneyti. Í dag er því engin hindrun fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Akureyri að fjárfesta frekar í metanbíl en bensín- eða dísilbíl. Einnig eru til margar útgáfur af sendla- og flutningabílum sem ganga fyrir metani.

Með tilkomu metanstöðvarinnar eru nú á Akureyri framleiddar þrjár gerðir orkugjafa fyrir bíla; metan, lífdísill og rafmagn. Þessi einfalda staðreynd segir svo margt um okkar litla samfélag; við búum yfir góðri og nútímalegri tækniþekkingu, hér er til staðar mikill metnaður til að byggja upp umhverfisvænar lausnir og við erum meðvituð um að við þurfum að nýta sem best þann úrgang sem lífsstíll okkar skilar frá sér.

Eins og kemur fram á vef Orkuseturs, www.orkusetur.is -> samgöngur -> tölfræði -> nýskráningar bíla, þá er af einhverjum ástæðum meiri áhugi hjá almenningi á Íslandi fyrir rafmagnsbílum en metanbílum þrátt fyrir að metanbíllin sé mun ódýrari í innkaupum og drægnin mun meiri.

Rafmagnsbílar eru sannarlega virkilega spennandi kostur á Íslandi; orkan innlend, hrein, örugg og ódýr og flestir geta hlaðið bílinn heima. Ríkisstjórn Íslands ákvað nýlega að veita tugum milljóna í uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsvæðingu bílaflotans. Í dag bjóða nánast allir bílaframleiðendur upp á rafmagnsbíla eða tengiltvinnbíla (rafmagns/bensín), innviðirnir byggjast hratt upp, drægnin eykst og verðið lækkar og því má gera ráð fyrir að innleiðingarhraðinn aukist mikið næstu misserin.

Við viljum hvetja fyrirtæki og einstaklinga sem hyggja á kaup á nýjum bíl að kynna sér málin vel, kíkja inn á www.orkusetur.is og/eða hafa samband við okkur hjá Vistorku, því staðan er í raun þannig í dag að fólk á ekki spyrja sig hvort það eigi að kaupa vistorkubíl heldur hvernig vistorkubíl.