Fara í efni

Innleiðingarhraðinn

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 22. ágúst 2015

Innleiðingarhraðinn

Flestum er orðið það ljóst að ekki verður lengur beðið með afgerandi aðgerðir í loftslagsmálum en einhverra hluta vegna er lítið um stórtækar aðgerðir hjá ráðamönnum. Einu leiðirnar til að draga verulega úr jarðefnaeldsneytisnotkun felast í betri nýtni og notkun umhverfisvænni orkugjafa. Á Íslandi notar almenningur aðeins jarðefnaeldsneyti í samgöngum og á því sviði liggur meginverkefnið næstu árin. Það eru ekki lengur nein tæknileg vandkvæði í orkuskiptum í samgöngum; lausnirnar eru komnar og hér eftir snýst þetta eingöngu um innleiðingarhraða. Það er hægt að hafa áhrif á neytendur þegar kemur að samgöngum og mörg dæmi um að breytingar á opinberum gjöldum hafi breytt markaðshlutdeild bifreiða. Pallbílar, sem áður sáust eingöngu til sveita, urðu alltof algengir í þéttbýli þegar óheppileg ívilnun var innleidd á sínum tíma. Mun jákvæðari gjaldbreyting var innleidd þegar innflutningsgjöld á bíla voru tröpputengd við útblástursgildi í stað tveggja þrepa kerfis. Markaðurinn brást hratt við og meðalútblástursgildi nýskráðra bifreiða hefur hrunið úr yfir 200 g/km árið 2005 niður undir 130 g/km nú 10 árum síðar.

Margir fleiri ættu auðvitað að hoppa á ívilnana- og innleiðingarvagninn. Sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki geta með ýmsum hætti lagt sitt að mörkum. Til dæmis með bættu aðgengi að umhverfisvænni orku, fjölbreyttara úrvali af farartækjum, betri bílastæði, lægri tryggingar, afslátt í skoðun, samgöngustyrki til starfsmanna o.s.frv.

Núorðið dylst það fæstum að ekki verður hjá því komist að skipta yfir í aðra orkugjafa hvort sem það er vegna aðgerða í loftlagsmálaum eða út frá þeirri einföldu staðreynd að olían er endanleg auðlind. Tveir góðir kostir eru tilbúnir að taka við keflinu, í mismiklum mæli. Hér er um að ræða raforku og metan sem eru bæði innlendir og umhverfisvænir orkugjafar. Sem betur fer hafa stjórnvöld innleitt ívilnanir til að auka hlutdeild þessara kosta. Metan og rafmagn eru ekki skattfrjálsir orkugjafar eins og stundum er haldið fram enda með fullan virðisaukaskatt en hinsvegar eru þessir orkugjafar undanþegnir olíugjöldum sem eiga að standa undir vegakerfinu. Bent hefur verið á að þessir bílar keyri frítt á vegum landsins. Vissulega er það rétt og slíkar undanþágur ekki mögulegar til langs tíma en á meðan hlutdeild nýorkubíla er enn undir 1% af heildarflotanum þá eru þetta ótímabærar áhyggjur að mínu mati.

Hvernig koma þessar ívilnanir út gagnvart neytendum sem eru að huga að umhverfisvænni bílakaupum? Það er mjög erfitt að bera saman bíla þar sem útlit, tegund, litur og glasahaldarar trufla oft tæknilegan samanburð. Það er hinsvegar til bifreið á markaði sem er til í bensín-, dísil-, metan- og rafmagnsútgáfu og hentar því vel til samanburðar. Bifreiðin er Volkswagen Golf en hún hefur selst vel í gegnum tíðina hér sem erlendis. Samanburðurinn sem hér settur er fram er einfaldur og ekki teknir inn þættir eins og t.d. afskriftir, fjármagnskostnaður og þjóðhagsleg áhrif heldur einungis innkaupsverð og þriggja ára orkukostnaður. Miðað er við núverandi verðlag á bíl og orku og 20.000 km akstur á ári

Tegund

 

Verð

[kr.]

Orka

[kr./ár]

Samtals

[kr./3 ár]

CO2 áhrif

[kg/ár]

VW Golf Comfortline bensín

3.750.000

215.000

4.395.000

2.300

VW Golf Comfortline dísill

4.190.000

152.100

4.646.300

2.000

VW Golf Comfortline metan

3.590.000

104.300

3.905.000

0

VW e-Golf rafmagn

4.590.000

33.020

4.689.060

0

 

Eins og sjá má duga núverandi ívilnanir að miklu leyti til að gera orkuskiptin álitleg gagnvart neytendum. Metanbifreiðin er bæði ódýrari í innkaupum og rekstri og í raun án vandkvæða enda eru metanbifreiðar tvíorkubílar og geta ekið á bensíni ef langt er í næstu metanstöð. Reyndar er komin metanstöð á Akureyri og nokkrar á höfuðborgarsvæðinu. Það er því í raun hálfgalið að velja bensínbílinn umfram metanbílinn. Rafbíllinn er nokkuð dýrari í innkaupum þrátt fyrir ívilnanir en afar lágur rekstrarkostnaður étur upp muninn með talsverðum hraða.

Það er ekkert leyndarmál að að ríkissjóður verður af skatttekjum á meðan ívilnanir gilda en ef stjórnmálamenn meina eitthvað með yfirlýsingum sínum um nauðsynlegar aðgerðir í loftslagsmálum þá er þetta réttlætanlegur stríðskostnaður í baráttunni við jarðefnaeldsneytið og loftlagsbreytingar. Ef ráðamenn eru að tapa sér yfir töpuðum tekjum ríkissjóðs er lítið mál að hækka kolefnisgjald á olíulítrann um 2-3 krónur til að bæta upp tekjutapið og rúmlega það. Það eina sem vantar er stefna um ívilnanir til lengri tíma, t.d. 10 ár eða þangað til 10% flotans ganga fyrir umhverfisvænni orku. Eftir það verður samkeppnisstaða nýorkubíla líklega og vonandi betri og þörf fyrir ívilnanir minni eða engar. Flóknara er þetta nú ekki.

Greinin birtist fyrst á Vísi.