Fara í efni

Óskiljanleg sóun

Sigurður Ingi Friðleifsson
skrifar 03. apríl 2018

Óskiljanleg sóun

Á Íslandi er framleitt hágæðaeldsneyti á gasformi sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er alltof lítið brúkað.
Metan er framleitt á tveimur stöðum á landinu, hjá Norðurorku á Akureyri og Sorpu sem fanga hauggas sem myndast vegna rotnunar í gömlum sorphaugum. Það er gríðarlegur umhverfisávinningur fólginn í því að fanga hauggasið, áður en það sleppur í lofthjúpinn, og brenna það svo á bifreiðum. Í stað þess að hauggasið endi sem afar öflug gróðurhúsaloftegund er því safnað og breytt í hágæða eldsneyti, metan. Metanframleiðslan mun aldrei geta annað öllum bílaflotanum en hún getur sannarlega annað miklu fleiri metanbílum en eru nýskráðir um þessar mundir. Gasið myndast nefnilega óháð því hvort við notum það eða ekki, þannig að ef það er ekki notað á bíla þá tapast það einfaldlega sem uppgufun. Það er klár sóun.

Í starfi mínu hef ég hlustað á endalausar afsakanir um það hversu erfitt er að stíga skref í átt að orkuskiptum og minni útblæstri. Skoðum nokkrar af þessum afsökunum í samhengi við metanlausnina:

Fullyrðing: Of dýrir bílar. Nei, vegna eðlilegra ívilnana eru metanbílar ódýrari en sambærilegir bílar. Nokkrar af allra vinsælustu bílategundum landsins, eins og VW golf og Skoda Octavia eru til í metanútgáfu og eru ÓDÝRARI en sambærilegar bensínútgáfur. Þetta eru ekki breyttir bílar heldur koma beint frá framleiðanda. Í raun og veru eru þessir bílar líka bensínbílar með bensíntank en geta einnig gengið á metani einu saman. Það er í raun óskiljanlegt að sumir velji að borga nokkra hundraðþúsundkalla aukalega fyrir bíl til þess eins að geta ekki tekið metan. Það er eins og þú færir á hamborgarastað og borgaðir auka pening til að losna við að fá franskar kartöflur með hamborgaranum.

Fullyrðing: Umhverfisvænt eldsneyti er dýrara. Já, því miður er það yfirleitt þannig, ekki síst vegna þessa að olíuverð hefur aldrei endurspeglað eigin umhverfiskostnað. Metan er hins vegar ódýrara fyrir neytendur. Bensínlítraígildið af metangasi er í kringum 150 kr. og hefur verið þannig í langan tíma, sem sagt verðstöðugleiki, ólíkt olíu. Neytendur borga þannig bæði minna fyrir metanbílinn og eldsneytið auk þess sem bifreiðagjöld eru lægri. Það er sem sagt ódýrara að kaupa og reka metanbíl frá toppframleiðanda sem gengur á innlendu eldsneyti, dregur úr neikvæðum loftlagsbreytingum auk þess sem bíllinn hefur minni heilsuspillandi útblástur. Samt velja margir að kaupa sambærilega bensínbíla, óskiljanlegt.

Það hlýtur að vera hægt að finna einhverjar aðrar afsakanir. Til dæmis að það eru of fáar afgreiðslustöðvar og svo er þetta hættulegt og eldfimt gas. Vissulega eru afgreiðslustöðvarnar ekki margar en þeim hefur fjölgað og nú eru fimm á höfuðborgarsvæðinu og ein á Akureyri. Auðvitað þýðir þetta að metan er ekki besta lausnin fyrir alla landsmenn en það breytir því ekki að metan er frábær lausn fyrir marga landsmenn. Og aftur verður að minna á að metanbílar hafa einnig bensíntank og verða því aldrei strand þó metanið þrjóti og langt sé í næstu stöð. Vissulega er metan eldfimt gas sem höndla verður með varúð, en við gleymum oft að olía er líka eldfim og hættuleg og getur, ólíkt metani, valdið alvarlegri mengun á ferskvatni við leka.

Sem betur fer velja fleiri og fleiri rafbíla en ennþá kaupa hins vegar flestir nýja bensín- og dísilbíla. Oft er afsökunin hátt innkaupaverð á rafbíl og lítil drægni en þær afsakanir gilda bara alls ekki fyrir metanbíla. Það er hægt að kaupa ódýran hágæða bíl frá traustum framleiðanda sem getur gengið fyrir ódýrari innlendri og umhverfisvænni orku án nokkurra drægnitakmarkana, enda bensíntankur til vara. Það eru bæði vonbrigði og ráðgáta af hverju svo fáir velja þennan frábæra kost. Það er óskiljanleg sóun að nýta ekki betur þetta frábæra íslenska eldsneyti.

Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.