Skipulagðar samgönguvenjur
Skipulagðar samgönguvenjur
Fyrir 25 árum síðan vorum við hjónin við nám í Óðinsvéum í Danmörku. Við bjuggum þar í rúm fjögur ár, fátækir námsmenn með tvö börn í leikskóla. Aldrei datt okkur í hug að setja peninga í að kaupa og reka bíl enda aðstæður til hjólreiða í borginni algjörlega til fyrirmyndar. Svo ég segi það aftur, þetta var fyrir 25 árum síðan. Hvergi á Íslandi eru aðstæður fyrir hjólreiðafólk í dag nálægt því sem var í Óðinsvéum þá.
Hvað er til ráða?
Áður en við förum yfir það, smá upprifjun á hvernig var umhorfs í heiminum árið 1996. Það ár hóf General Motors fjöldaframleiðslu á fyrsta rafbílnum GM EV1. Framleiðslunni var hætt árið 2002. Motorola kynnti fyrsta samlokufarsímann árið 1996 og The Usual Suspects var sýnd í Borgarbíó á Akureyri.
Í Óðinsvéum var uppbygging hjólreiðakerfisins á fullu, sem skilaði því að á árunum 1996-2000 jókst hjólreiðaumferðin um 20% en það merkilega gerðist einnig að slysum á hjólreiðafólki fækkaði um 20% á sama tíma. Þannig að eftir því sem hlutfall hjólreiða jókst í samgöngum lækkaði slysatíðnin. Helstu ástæðurnar voru taldar þær að með bættum innviðum varð hjólreiðafólk öruggara í umferðinni og fékk því aukið sjálfstraust með tímanum. Með fjölbreyttari samgöngumátum verða allir í umferðinni meðvitaðri um hjólreiðafólk enda sest hjólreiðafólkið líka undir stýri. Þetta sýnir hversu mikilvægt er að sem flestir nýti sér hjólreiðar innanbæjar því það skilar sér í varkárari ökumönnum.
Ganga og hjólreiðar eru lang ódýrustu samgöngukílómetrarnir fyrir einstaklinginn, bæjarsjóðinn og heilbrigðiskerfið. Við þurfum með öllum ráðum að fjölga þannig samgöngukílómetrum og fækka olíukílómetrunum. En þetta snýst líka um frelsi, einkabíllinn er bara frelsi fyrir suma, þá sem hafa efni á að eiga bíl og hafa bílpróf. Aðrir eru annaðhvort upp á þá komnir eða verða að nýta aðrar lausnir til að komast á milli staða. Til að skerða ekki frelsi þeirra samanborið við þá sem geta nýtt sér fólksbílasamgöngur þarf að byggja upp fjölbreytt og öflugt samgöngukerfi þar sem öllum ferðamátum er gert hátt undir höfði og enginn er yfir annan hafinn.
Við höfum undanfarin ár séð mikinn vöxt í rafvæddum samgöngum; rafstrætisvagnar, rafleigubílar, raffólksbílar, rafhjól og rafskutlur. Þessi þróun býður upp á algjörlega nýja möguleika í uppbyggingu bæja og borga. Mörg sveitarfélög hafa einnig í sínum skipulagsáformum sett fram markmið um að draga úr bílaumferð og ríkið hefur þegar ákveðið daginn sem síðasta olíulítranum verður brennt á Íslandi. Stjórnmála- og embættismenn sem bera ábyrgð á þessum málum hafa allt um það að segja hversu hratt við náum markmiðum okkar í orkuskiptum og minni losun CO2. Við höfum í sumar verið rækilega minnt á áhrif CO2 á loftslagið og nýútkomin IPCC skýrsla Sameinuðu þjóðanna er alveg skýr með ástæðuna; brennsla á olíu og kolum.
„Lille“ Akureyri
Tökum Akureyri, minn heimabæ, sem dæmi. Hér búa tæplega 20.000 manns. Lengsta beina leið innanbæjar samkvæmt Google maps er 6 km þannig að það tekur um 73 mínútur að ganga bæinn enda á milli. Það tekur um 12 mínútur að ganga 1 km.
Í ráðleggingum landlæknis um hreyfingu segir að fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í minnsta lagi 60 mínútur á dag. Hér er um lágmark að ræða. Á sama tíma og við brennum allt of miklu kolefni til að komast á milli staða í bíl þá missum við af tækifærinu til að brenna fleiri kaloríum við að koma okkur á milli staða. Við erum sem sagt á sama tíma að skaða loftslagið og okkar eigin heilsu.
Vinsælu afsakanirnar um að við þurfum bíl á Akureyri út af brekkunum og veðrinu eru fallnar úr gildi. Rafhjól gera bæinn flatan eins og Óðinsvé, en þótt júlí hafi verið sá heitasti í sögu bæjarins dró ekki úr bílaumferð í sumar. Við erum því ekki einu sinni að nýta góðu dagana til að fylgja tilmælum landlæknis og Sameinuðu þjóðanna – hreyfa okkur meira og brenna minni olíu.
Tækifærin
Með skjótum aðgerðum er hægt að breyta samgönguvenjum. Stefna ríkisins er skýr, ráðleggingar landlæknis eru skýrar, landsskipulagsstefna er skýr og allar stefnur og skipulagsskjöl sveitarfélaganna eru skýr. Við verðum að þróast í þá átt að vera sjálfbærari, umhverfisvænni, efla heilsuna og minnka svifrykið.
Héðan í frá snýst þetta bara um ákvarðanir stjórnmála- og embættismanna um hvernig tekst til. Þau hafa öll verkfærin til að taka réttar ákvarðanir.
Þessi pistill er hluti greinaraðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá formlegu upphafi skipulagsgerðar hér á landi með setningu laga um skipulag kauptúna og sjávarþorpa árið 1921 og birtist fyrst í Kjarnanum.