Skólaganga eða skólaskutl?
Skólaganga eða skólaskutl?
Undanfarna daga hafa verið miklar froststillur hér á Akureyri, en notalegasta veður. Stígar eru vel ruddir og auðveldir til umhverfisvænna samgangna. Á göngu minni til og frá vinnu þessa daga hef ég notið þeirrar miklu náttúrufegurðar sem þessar aðstæður bjóða upp á. Tvennt hefur þó truflað þá upplifun; mikil bílaumferð og megn bensínstybba í loftinu. En þökk sé Covid er maður ekki eins og hálfviti með grímu fyrir andlitinu á göngu um bæinn að verjast loftmengun frekar en vírus.
Á þessu rölti tek ég líka eftir því að fjölmörgum börnum virðist vera skutlað í og úr skóla á hverjum degi. Í því samhengi rifjaðist upp fyrir mér að nýverið var samþykkt menntastefna fyrir sveitarfélagið. Ég ákvað að fletta henni upp á heimasíðu bæjarins. Hún er samþykkt í febrúar 2020. Í henni stendur meðal annars: „Börn fá tækifæri til að reyna á eigin skinni hvernig þau geta mótað umhverfi sitt og haft áhrif á sjálfbærni í veröldinni allri.“ Sjálfbærni í veröldinni allri, hvorki meira né minna.
Sjálfbærni eða sjálfbær þróun er skilgreind sem þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Nú liggur það fyrir að heimurinn hefur samþykkt að vinna út frá þeirri niðurstöðu vísindamanna að samgöngur á bíl á jarðefnaeldsneyti séu ósjálfbærar og óumhverfisvænar, enda er olía endanleg auðlind sem veldur miklum neikvæðum áhrifum á loftslagið og áhrif hennar munu skerða verulega tækifæri komandi kynslóða að lifa við sömu gæði og við búum við í dag. Með þessa þekkingu ættum við í raun að leggja allt kapp á að draga úr skutli og notkun á olíu í samgöngum. Svo ekki sé talað um sótið, svifrykið og hávaðann.
Bærinn rekur 9 leikskóla og 10 grunnskóla og býr nánast enginn nemandi í grunnskóla á Akureyri í meira en 10 mínútna göngufjarlægð frá næsta skóla. Af hverju allt þetta skutl samt? Viljum við keyra börnin í bíl svo þau verði ekki fyrir bíl?
Er það svo að þegar börn nútímans verða spurð í framtíðinni um skólagöngu sína þá munu þau svara: „Ég gekk aldrei í skóla, mér var alltaf skutlað.“