Fara í efni

Það hriktir í hjónabandinu

Guðmundur Haukur Sigurðarson
skrifar 10. mars 2021
Myndahöfundur: Kristjana Skúladóttir
Myndahöfundur: Kristjana Skúladóttir

Það hriktir í hjónabandinu

Ég hef þekkt hana frá fæðingu. Við giftumst ung, hún reyndar mun eldri en ég. Það hefur gengið á ýmsu í gegnum tíðina og ég hef stundum flutt út frá henni en alltaf snúið aftur og hún tekið við mér. Hún er reyndar mjög vanaföst; á hverju ári, þegar gestagangurinn byrjar, fer hún annað hvort í hvíta eða græna kjólinn, eða kannski er það öfugt; að gestirnir koma ekki fyrr en hún er búin að klæða sig. Þess á milli nennir hún varla fram úr á morgnana, er úfin og stúrin. En þrátt fyrir alla hennar galla og bresti eru kostirnir bara svo margir að hér finnst mér best að búa. Blessunin hún Akureyri, það er eitthvað við hana.

Akureyri fæddist falleg, umhverfið og bæjarstæðið eru með því besta sem völ er á. Ekki eru þó allir sammála um hvernig hún hefur vaxið og þroskast. Sumum finnst hún of íhaldssöm og öðrum finnst hún of frjálsleg.

Persónulega vona ég innilega að þegar Akureyri verður 300 ára verði hún ekki eins og hún hafi borðað óhollan skyndibita og reykt og djammað alla ævi. Ég vona að hún þróist þannig að bærinn iði af mannlífi og fólk gangi og hjóli; til og frá vinnu, í búðina, í tómstundir, á kaffihús og á tónleika, en ekki bara þegar það fer í skipulagða göngu- eða hjólatúra. Af einhverjum ástæðum, því miður, velja flestir enn að fara allra sinna ferða innanbæjar á bíl. Í mínum huga eru það ekkert annað en skyndikynni.

Staðan á Akureyri í dag er þannig að hér hafa aldrei verið fleiri bílar og aldrei verið meira svifryk. Mér finnst það ekki heillandi. Ég vil ekki búa í bílabæ og mig grunar að það séu fleiri íbúar en ég sem vilja draga úr og helst snúa þessari þróun við.

Við fáum svo margt með því að draga úr umferð bíla innanbæjar; betra mannlíf, meira öryggi, betri loftgæði, minni hávaða og síðast en ekki síst er það svo miklu miklu ódýrara að ferðast um gangandi eða hjólandi heldur en á bíl. Ég er ekki að tala um bíllausan lífsstíl, bara að hann sé ekki notaður til allra ferða innanbæjar við allar aðstæður. Hver virkur dagur vikunnar sem bíllinn er ekki notaður til og frá vinnu er 20% samdráttur. Hver dagur skiptir máli.