Fara í efni

Engar uppfinningar, bara innleiðing!

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 02. ágúst 2016

Engar uppfinningar, bara innleiðing!

Jæja! Nú eru góðir 6 mánuðir liðnir síðan fjöldi leiðtoga heimsins skrifaði undir Lofts- lagssamkomulagið í París. Um­hverfis­ráðherra Íslands var þar á meðal.

Við undirritunina skuldbatt ríkis­stjórn Íslands sig til að vinna að því að ná markmiðum samkomulagsins. Fyrstu aðgerðir hennar eru þegar farnar að líta dagsins ljós en nýlega var auglýst verkefnið „rafbílar – átak í innviðum“ þar sem veitt verður styrkjum að upphæð allt að 201 milljón á næstu 3 árum. Styrkirnir geta hæst numið 50% af áætluðum kostnaði verkefnisins þannig að vonandi sjáum við yfir 400 milljóna króna uppbyggingu innviða fyrir rafbíla á næstu 3 árum.

Fleiri en ríkið hafa skuldbundið sig. 103 fyrirtæki skrifuðu undir svokallaða loftslagsyfirlýsingu FESTU og Reykjavíkurborgar. Stofnanir ríkisins, þessi 103 fyrirtæki og vonandi miklu fleiri, eru væntanlega þegar búin eða munu á næstunni setja fram og kynna markmið sín og aðgerðir.

Mörg félaganna á lista FESTA eru með starfsemi á Akureyri og ríkið rekur fjölmargar stofnanir á Akureyri, eins og skóla, heilbrigðisstofnanir, Vegagerðina og lögregluna. Öll þessi félög og stofnanir eru mikilvægir þátttakendur í markmiðum Akureyrarbæjar um að verða kolefnishlutlaust bæjarfélag á næstu árum.

Á undanförnum árum hefur bærinn farið í fjölmörg verkefni sem færa hann nær markmiði sínu, svo sem frítt í strætó og framleiðslu á moltu og metani. En hver ættu að vera næstu skref hjá bæjarfélaginu? Eigum við að feta í fótspor t.d. San Francisco, sem hefur bannað frauðplastsumbúðir, eða Noregs og Hollands, sem stefna á að frá og með árinu 2025 verði bannað að flytja þangað inn bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti. Margir fleiri eru með alvöru aðgerðir í gangi, t.d. stefnir bandaríski sjóherinn á að búið verði að skipta 50% af notkun hans á jarðefnaeldsneyti út fyrir aðra orkugjafa árið 2020. Margar borgir í Evrópu ætla sér að banna alla bílaumferð í miðbæjum sínum. Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, steig þetta skref fyrir nokkrum árum og hefur það gjörbreytt borginni og lífinu í miðbænum, sérstaklega hvað varðar hávaða og loftmengun. Borgin var m.a. vegna þessa valin „Green Capital 2016“. Sumir eru líka löngu búnir að gera eitthvað, eins og smábærinn Modbury á Englandi sem bannaði notkun á plastpokum fyrir 10 árum síðan.

Allir taki þátt
Eins og okkur hefur tekist vel til hingað til, með mikilli þátttöku íbúa í flokkun á lífrænu sorpi og stóraukinni notkun á strætó, þá gildir það sama nú að allir þurfa að koma með og taka þátt. Sérstaklega þurfa fyrirtækin og aðilar eins og matvöruverslanir, matvælaframleiðendur, veitingahús, rútufyrirtæki, bílaleigur, hótel o.fl. að setja sér skýr markmið og skilgreina aðgerðir ef þetta á að verða að veruleika. Hvað ætla þau að gera fyrir árið 2020 og hvað fyrir 2025 og 2030?

Það þarf engar dýrar og flóknar aðgerðir enda er nú þegar búið að fjárfesta í framleiðslueiningunum (Moltu, Orkey, Metan) og innviðunum (hleðslustöðvar, endurvinnslustöðvar, græna trektin, græna karfan). Þetta er allt komið upp, nú er bara einföld og ódýr innleiðing eftir:

  • kaupa rafmagns- og/eða metanbíla (þegar bílar eru endurnýjaðir)
  • bjóða starfsmönnum upp á samgöngustyrk eða aðgang að rafmagnshjóli
  • flokka allt lífrænt sorp og skila í moltu
  • hirða alla notaða matarolíu og fitu og skila í Orkey
  • flokka allan úrgang eins og plast, pappa og málma
  • kolefnisjafna flugferðir með skógrækt

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu