Grænar greinar fyrir jólin – hluti II
Grænar greinar fyrir jólin – hluti II
Árið 2007 voru uppi hugmyndir um að hefja hér stórfelldan innflutning á kanólafræjum frá Kanada. Ætlunin var að umskipa þeim á Dysnesi til áframflutnings til Evrópu. Það opnaðist því tækifæri á því að nýta hluta af fræjunum til framleiðslu á lífdísli hér innanlands. Verkefnið varð ekki að veruleika en fyrirtækið Orkey, sem hafði verið stofnað í þessum tilgangi, hélt þó áfram að skoða möguleika á lífdísilframleiðslu á Akureyri.
Árið 2009 var síðan byrjað að kanna möguleikann á því að nýta úrgangssteikingarolíu og dýrafitu til framleiðslunnar. Það reyndist raunhæft og frá því að Orkey var gangsett fyrir 5 árum hefur verksmiðjan framleitt yfir hálfa milljón lítra af lífdísli sem hefur meðal annars verið nýttur á skip Samherja, strætó á Akureyri og til vegagerðar. Veitinga- og sláturhús, sem áður þurftu að greiða sorphirðufyrirtækjum fyrir að farga úrganginum, geta nú með tilkomu Orkeyjar fengið greitt fyrir „vöruna“. Úrgangi hefur því verið breytt í umhverfisvæna og verðmæta vöru.
Mikilvægt er að meðhöndla úrgang eins og notaða steikingarolíu og aðra matarolíur á ákveðinn hátt. Feiti og olíur mega alls ekki fara í fráveitu sem þýðir að þeim má ekki hella í vaska eða klósett. Dæmi eru um að einstaklingar hafi fengið notaða djúpsteikingarolíu hjá veitingahúsum til að nýta á eigin farartæki eins og jeppa en samkvæmt lögum um meðhöndlun á úrgangi er það óheimilt enda segir orðrétt í lögunum „allur úrgangur skal færður til meðhöndlunar í söfnunar- eða móttökustöð“.
Nýjasta verkefnið sem tengist Orkey er græna trektin sem íbúum Akureyrar mun fljótlega standa til boða þeim að kostnaðarlausu. Trektin er einfaldur búnaður sem er skrúfaður á venjulegar plastflöskur til að safna úrgangsolíu og fitu sem fellur til á heimilum bæjarins. Þegar búið er að fylla flöskuna er henni einfaldlega komið fyrir við sorptunnur heimilisins. Ef menn vilja losna við flöskuna strax er hægt að senda tilkynningu á nordurland@gamar.is. Eins er hægt að skila þessu beint á gámasvæðið við Réttarhvamm, sem getur verið heppilegt þegar um stórtæka steikingu er að ræða eins og t.d. í laufabrauðsgerðinni fyrir jólin. Öll laufabrauðsfita er vel þegin og yrði kærkomið innlegg í eldsneytisframleiðslu á Akureyri um þessar mundir.
Vistorka og Orkey hafa á undanförnum mánuðum fengið styrki frá nokkrum opinberum sjóðum til að vinna að hagkvæmni þess að framleiða lífdísil úr öllum fitu- og olíuríkum úrgangi sem til fellur á svæðinu. Hugmyndin er að setja framleiðslu Orkeyjar við hlið Moltu og byggja upp nýtt ferli sem kreistir alla fitu úr lífræna úrganginum. Verði þessi áform að veruleika mun tvennt vinnast; í fyrsta lagi mun framleiðsla Orkeyjar fara úr 150 þúsund lítrum á ári í um 4-500 þúsund lítra, og í öðru lagi munu gæði moltunnar aukast þar sem fitan verður fjarlægð áður en lífræni úrgangurinn fer í moltuferlið. Með tilkomu Orkeyjar er nú til staðar söfnunarferli sem er einfalt, skilvirkt og virðisaukandi, samanber söfnunina á lífræna úrganginum sem fer til Moltu.