Fara í efni

Grænar greinar - hluti IV - Árið 2030

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 17. desember 2015

Grænar greinar - hluti IV - Árið 2030

Vistorka hefur fyrir jólin skreytt Vikudag með grænum greinum. Tímapunkturinn er auðvitað engin tilviljun því eins og hverju mannsbarni ætti að vera ljóst var skrifað undir sögulegt samkomulag í loftslagsmálum í París um síðustu helgi. Undirritaður tók þátt í ráðstefnunni sem fulltrúi Akureyrarbæjar. Ísland hefur forskot á flestar aðrar þjóðir þegar kemur að nýtingu á umhverfisvænni orku. Það túlkar það þó vonandi enginn sem svo að nóg sé að gert.

Mig langar hér í síðasta pistlinum fyrir jól að ræða þau tækifæri sem við eigum í Eyjafirði og þau markmið sem við gætum sett okkur í samræmi við framlag okkar í Parísarsamkomulagið. Til að einfalda hlutina tala ég um alla framleiðslu á eldsneyti í lítrum en ekki tonnum eða rúmmetrum eins og oft er gert.

Framleiðsla
Í dag er framleiðslugetan á umhverfisvænu eldsneyti á Akureyri í kringum ein milljón lítra á ári. Verðmæti þessarar framleiðslu gætu verið í kringum 190 milljónir. Það eru aðeins beinar sölutekjur og þá eru ónefnd umhverfisáhrifin og önnur hliðaráhrif eins og störf og gjaldeyrissparnaður. Vistorka og tengd félög hafa undanfarið verið að skoða möguleika á að stórauka framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti:

  • Nýting á ýmsum olíu- og fituríkum úrgangi til að framleiða um 500.000 lítra af lífdísli
  • Innflutningur á 4.000 tonnum af repjufræjum þar sem við framleiðsluna verða til 2.500 tonn af repjuhrati sem getur nýst sem dýrafóður og 1.500 tonn af repjuolíu sem gæfu um 1.500.000 lítra af lífdísli.
  • Nýting á mykju í Eyjafirði til að framleiða 2.000.000 lítra af metani.

Til viðbótar við þetta gerir Fallorka ráð fyrir að virkja rúm 3 MW í Glerá, sem samsvarar rafmagnsnotkun um 7.000 fólksbifreiða. Það er því fullkomlega raunhæft að allur okkar bílafloti keyri á umhverfisvænni orku eftir 15 ár.

Samgöngur
Við búum í litlu samfélagi í viðkvæmu vistkerfi, umvafin gríðarlegri náttúrufegurð, og okkur ber skylda að skila þessum gæðum áfram til komandi kynslóða. Eitt það auðveldasta sem við getum gert til að koma okkur á milli staða með umhverfisvænum hætti er að ganga, hjóla og nýta almenningssamgöngur. Á Akureyri er lengsta mögulega (nokkuð beina) vegalengdin á milli tveggja staða 6 km. Já, 6 km, það samsvarar því að búa syðst í Naustahverfi og vinna nyrst í bænum. Yfir 95% allra nemenda í grunnskólum bæjarins búa innan við 1 km frá skóla. Það tekur um 3 mínútur að hjóla og 10 mínútur að labba 1 km.

Næstu 15 ár
Við Akureyringar ættum auðveldlega að geta sett okkur eftirfarandi markmið:

  • Heimilin verði kolefnishlutlaus í árslok 2020 (er um 90% í dag)
  • Rafmagns-, metan- og tengiltvinnbílar verði 10% flotans árið 2020 (um 1.000 bílar)
  • Allur úrgangur fari til endurvinnslu í árslok 2020 (nú fara um 30% í urðun)
  • Allir nýskráðir bílar verði vistorkubílar frá 2025
  • Allar almenningssamgöngur noti endurnýjanlegt eldsneyti í árslok 2020
  • Allir skólar með grænfána 2018
  • Fyrirtæki, stofnanir og ferðamenn geti kolefnisjafnað starfsemi sína og ferðalög með skógrækt

Gerum Akureyri og nágrenni að umhverfisvænsta svæði í heimi fyrir árið 2030!

Grein þessi birtist fyrst í Vikudegi.