Fara í efni

Notuð matarolía IKEA í Garðabæ nýtist til fiskveiða við Ísland

Notuð matarolía IKEA í Garðabæ nýtist til fiskveiða við Ísland

IKEA í Garðbæ og Orkey á Akureyri hafa samið um nýtingu á notaðri matarolíu frá veitingastað IKEA. Framvegis mun IKEA skila allri matarolíu til Efnamóttökunnar í Hafnafirði sem sér um að safna notaðri matarolíu fyrir hönd Orkeyjar. Öll framleiðsla Orkeyjar er í dag notuð á skip hjá Samherja.

Fyrirtæki eins og IKEA sem taka alvarlega stefnur og markmið sem þau hafa sett sér hvað varðar gæði og umhverfi verða að geta sýnt fram á að notast við bestu ferla sem í boði eru á hverjum tíma. Til að tryggja gæði steikingarolíunnar eru hún mæld á hverjum degi (magn af fríum fitusýrum) þannig að maturinn verður heilsusamlegri og notaðri matarolíu komið í besta endurvinnsluferli sem völ er á.

IKEA notar um þúsund lítra af olíu á mánuði til matargerðar. Í vinnsluferli Orkeyjar þá verður einn líter af matorlíu að einum líter af lífdísli. Ef þessu magni er blandað t.d. 5% í venjulega dísilolíu dugar það á um 250 bíla á ári.

Þessi endurvinnsluferill fyrir notaða matarolíu er sá besti sem völ er á í dag. Orkey notar heitt vatn og rafmagn frá Norðurorku og metanól sem CRI vinnur úr útblæstri jarðvarmavirkjunar í Svartsengi og öll efni sem falla frá við vinnsluna fara síðan í jarðgerðarstöð Moltu sem stoðefni í framleiðslu á hágæða áburði. Það er því varla hægt að framleiða umhverfisvænna eldsneyti.