Fara í efni

Ósýnilegur úrgangur

Guðmundur H. Sigurðarson
skrifar 23. nóvember 2020

Ósýnilegur úrgangur

Saga evrópsku nýtnivikunnar nær aftur til 2009 og er framtak ýmissa opinberra aðila í Evrópu. Á Íslandi heldur Umhverfisstofnun úti vefnum - Saman gegn sóun - sem er verkefni um almenna stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir. Akureyrarbær hefur tekið þátt í evrópsku nýtnivikunni undanfarin ár með ýmsum viðburðum, en eins og gefur að skilja þá er vikan með óhefðbundnu sniði í ár og flestir viðburðnir fara fram á netinu. Í ár er vakin athygli á því sem kallast ósýnilegur úrgangur og er sá úrgangur sem við sem neytendur verðum ekki vör við í framleiðsluferli vörunnar. Góð dæmi eru eins og þegar við kaupum nýjan bíl eða nýtt hús, varan er tilbúin og framleiðsluaðilinn hefur séð um alla úrgangsmeðhöndlun á framleiðslutímanum. Líklega hefur enginn bíla- eða fasteignasali á Íslandi verður spurður um úrgangsstefnu bílaframleiðandans eða verktakans.

Stóra verkefnið er auðvita að gera allt sem við getum til að draga úr úrgangi og síðan að flokka og meðhöndla rétt þann úrgang sem fellur til. Það snýst ekki bara um auðlindirnar heldur veldur röng meðhöndlun á úrgangi miklum loftslagsáhrifum.

Við Akureyringar eigum eitt skýrasta dæmið um alvöru árangur af réttri flokkun, með því að setja 1 kg af matarúrgangi í moltugerð í stað urðunar drögum við úr losun CO2 um 1 kg. Á hverju ári fara um 8.000 tonn hér af svæðinu í þennan farveg í stað urðunar. Það er því risa loftslagsákvörðun að henda matarleifum í almennt rusl sem fer í urðun.

Sama gildir um aðrar auðlindir, að flokka málma og endurvinna dregur úr losun um 9 kg af CO2 fyrir hvert 1 kg sem er endurunnið í stað þessa að sækja nýjan skammt í námu. Einnig endurnýting á úrgangs matarolíu dregur úr losun um 3 kg CO2 fyrir hvert 1 kg sem við söfnum í eldhúsinu í gegnum Grænu trektina og skilum í lífdísilgerð. Drögum úr úrgangi og flokkum rétt.

Pistillinn birtist fyrst á akureyri.net