Fara í efni

Samstarf Vistorku og SIT á Akureyri

Samstarf Vistorku og SIT á Akureyri

SIT eða School for International Training er bandarísk sjálfseignastofnun sem býður nemendum í bandaríkjunum upp á fjölbreytt námskeið á háskólastigi. Undanfarin ár hafa verið í boði námskeið á Íslandi þar sem áherslurnar eru auk íslensku, málefni tengd endurnýjanlegri orku, tækni og auðlindahagfræði.

Samstarf Vistorku og SIT hófst í ársbyrjun 2019. Fyrsti hópurinn kom til Akureyrar í júní það ár og dvaldi í rúma vika í heimagistingu í Eyjafjarðarsveit. Vegna Covid-19 var námskeiðið 2020 fellt niður en SIT býður einnig upp á námskeið á Íslandi (fer að mestu fram á Ísafirði) sem fjallar um loftslagsbreytinga og norðurslóðamál. Það námskeið var haldið haustið 2020, vegna þessara sérstöku aðstæðna setti Vistorka saman smá dagskrá á Akureyri fyrir þann hóp sem vonandi verður endurtekið aftur í haust.

Eftir að landamærin opnuðu og Covid takmörkunum var aflétt á Íslandi tókst að setja sumarnámskeiðið 2021 í hefðbundið horf – að mestu. Vistorka tók að sér að setja saman þriggja daga dagská fyrir hópinn sem samanstóð af fyrirlestrum, skoðunarferð og verkefnavinnu. Hópurinn dvaldi á Akureyri í 10 daga og hélt síðan austur á land með viðkomu í Mývatnssveit.

Fyrsti dagurinn hófst með erindi frá Oddi Þór Vilhelmssyni sem er prófessor og forseti Viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Þá tók við Helga Kristjánsdóttir prófessor við HA og fjallaði um endurnýjanlegar orkulindir og hagfræði. Næstur var Sean Michael Scully aðjúnkt við HA og sagði hann nemendum frá rannsóknum sínum á lífeldsneytisframleiðslu með nýtingu lífvera sem lifa við erfiðar umhverfisaðstæður.

Eftir hádegi fluttu síðan; Bjarni Gautason frá Ísor, Guðmundur Haukur Sigurðsson frá Vistorku, Jens Kristinn frá Landsnet og Sigurður Ingi Friðsleifsson frá Orkusetri fyrirlestra um orkuauðlindir, orkusparnað, orkukerfi og orkuflutning.

Dagskráin fyrsta daginn endaði svo með kynningu Höllu Hrund Logadóttir nýskipuðum orkumálastjóra en hún nýtti þekkingu sína úr sínu gamla starfi og ræddi vítt og breitt um málefni Norðurslóða.

Dagur tvö byrjaði á erindi frá Sigurði Markússyni frá Landsvirkjun sem talaði við nemendur um framtíðar möguleika á Íslandi við nýtingu jarðvarma til framleiðslu matvæla sérstaklega hér á Norðausturlandi.

Þar á eftir fóru nemendur í „Græna túrinn“ sem er ferð um Akureyri og Eyjarfjörð þar sem skoðuð eru verkefni sem draga úr losun svæðisins. Byrjað var á Akureyri með því að skoða lífdísilframleiðslu Orkeyjar – en þar er notaðari steikingarolíu og fitu breytt í eldsneyti. Næst lá leiðin inn fjörðinn og að Laugaland þar sem Akureyringar fá meðal annars heita vatnið sitt. Borað var eftir heitu vatn á Laugarlandi árið 1976 með góðum árangri sem varð kveikjan að Hitaveitu Akureyrar. Seinna kom þó í ljós að vinnslusvæðið á Laugarlandið er verulega takmarkað en með tilkomu nýrra vinnslusvæða hefur verið hægt að draga úr vatnsvinnslu og jafnvægi náðst í jaðhitavinnsluna. Næsta stopp var Molta þar sem tekið er á móti lífrænum úrgangi, aðallega frá sláturhúsum og heimilum á svæðinu. Loks var haldið aftur inn á Akureyri þar sem komið var við á metan stöðinni og farið yfir framleiðslu metans í Glerárdal. En Norðurorka hf. hefur frá árinu 2014 framleitt metangas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal ofan Akureyrar. Þar er hauggasi safnað úr 45 borholum, það hreinsað í svokallaðri vatnshreinsistöð og úr verður metangas. Frá hreinsistöðinni er metanið leitt að þjöppustöð sem þjappar metangasinu í 230 bar þrýsting á metanlager, jafnhliða afgreiðslu á ökutæki.

 

 

Þegar nemendur komu til baka í HA tók Arnar Már Arngrímsson rithöfundur og framhaldsskólakennari við hópnum með erindi sem var töluvert ólíkt örðum erindum. Arnar deildi með nemendum hugrenningum sínum um íslenskt samfélag og menningu og endaði á því að benda þeim á íslenskar bækur og bíómyndir sem allir ættu að þekkja.

Dagurinn endaði svo á innlögn frá Gunnari Orra Ólafssyni Jensen um hlutverk Eims og kynningu á ör-hakkaþoni sem nemendur fengu að spreyta sig á. Hakkaþonið fór þannig fram að nemendum var skipt í hópa sem fengu síðan það verkefni að koma með nýja hugmynd sem tengdist matvælaframleiðslu og hringrásarkerfi og byggja strúktúr utan um hana með því að nýta viðskiptamódel Canvas.

Síðasta daginn tóku svo nemendur við fyrirlesarahlutverkinu og kynntu verkefnin sín. Sigurvegari hakkaþonsins var hópur sem bjó til verkefni um nýtingu á plasti sem hreinsað er úr sjónum. Framleiðslan nýtir tækni sem kallast cold plastic pyrolysis til að breyta úrgangsplasti í orku á formi vetnis og metan og nýta aðrar aukaafurðir eins og etýlen og CO2 til ræktunar í gróðurhúsum.

Hópurinn var verðlaunaður með gjöf frá Vistorku sem innihélt súkkulaði frá Sætt og salt sem þótti viðeigandi enda fyrirtækið gott dæmi um hugmynd sem byrjaði sem lítið gæluverkefni á Súðavík en er nú orðið að fyrirtæki sem hefur aukið framleiðslugetuna til muna undanfarin misseri vegna mikillar eftirspurnar og velgengni.

Vistorka hlakkar til áframhaldandi samstarfs við SIT á komandi árum.