Fara í efni

Skógrækt

Græni trefillinn - norðan Glerár er skógræktarskipulag sem unnið var fyrir Akureyrarbæ árið 2018 af Johan Holst.  Svæðið er hluti af aðalskipulagi bæjarins fyrir árin 2018 - 2030. Áætlað er að svæðið sem er ofan byggðar og er í heildina um 700 ha verði skóglendi með útivistaraðstöðu og gönguleiðum.

Kolefnisbindingaráætlun

Að gróðursetningu lokinni er áætlað að á svæðinu vaxi upp skógur  á um 190 ha samfelldu landi. Ef miðað er við bindingarstuðul 7 tonn CO2 á ha á ári mun svæðið þegar það er full gróðursett binda um 1300 tonn CO2 á ári. Þetta samsvarar um 600 fólksbílum sem keyra að meðaltali 15.000 km á ári. 

Markmiðið með Græna treflinum er margþætt:

Kolefnisbinding

Rækta á hraðvaxta og langlífar tegundir sem þurfa litla umhirðu. Þessar plöntur munu auka verulega kolefnisbindingu á svæðinu og því hjálpa til við að ná markmiði bæjarins um kolefnishlutleysi.

Náttúruvernd

Mikilvægt er að viðhalda náttúrulegum vistkerfum skógarins og ekki verður plantað í mýrlendi og berjalautir skildar eftir.

Útivist

Aðgengilegur og fjölbreyttur skógur þar sem slóða- og stígakerfi er greiðfært og nýtist bæði sem gönguleiðir og hjólaleiðir.

Landslag

Viðhalda þarf fallegri sýn bæði að og frá skóginum. Plantað verður með þeim hætti að skógurinn er gisinn í köntunum og mjúkar línur milli reita.

Jarðvegsvernd

Mikilvægt er að huga vel að jarðveginum sem er ofarlega í landinu þar sem hann er rýr og rofinn. Þar þarf að gróðursetja nægjusamar tegundir, svo sem lerki og birki.

Timbur

Neðarlega í svæðinu er landið frjósamt og eru þar góð skilyrði fyrir timburframleiðslu. Áherslan yrði þá á tegundirnar ösp og greni sem yrðu gróðursettar fremur þétt. 

                               Skipulagssvæði samkvæmt aðalskipulagi

 

Skýrslan í heild

Stærsti skógur Íslands er verkefni sem unnið var af Vistorku og Skógræktinni

Markmið

 Að draga upp útlínur mögulegs samfellds skógræktarsvæðis fyrir botni Eyjarfjarðar sem myndi nægja til að binda með skógrækt alla þá losun sem verður vegna mannlegra athafna á svæðinu. Verkefnið myndi skipta sköpum svo að Eyjarfjörður næði markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040.

 

Forsendur

Verkefnið sýnir líklega bindingu ef skógur yrði ræktaður miðsvæðis í Eyjafirði neðan 400 m hæðarlínu á mólendi og graslendi (samkvæmt vistgerðaflokkun NÍ), að frádregnum svæðum sem eru byggð, tún, vegir, raflínur og á náttúruminjaskrá.

Niðurstöðurnar ber að skoða sem dæmi um tæknilegan möguleika. Raunveruleg útfærsla og skógarþekja ráðast af vilja hvers og eins landeigenda og í samræmi við skipulagsáætlanir á hverju tíma.

 

Helstu niðurstöður

Núverandi skógrækt í innanverðum Eyjafirði er rúmir 2.000 ha og bindur nú þegar rúmlega 16.000 tonn af CO2 á ári.

Svæðið (sjá forsendur) gæti stækkað um allt að 11.400 ha með gróðursetningu á 30 milljónum plantna.

Þetta yrði stærsta samfellda skógarsvæði Íslands sem fullgróðursett myndi binda yfir 100.000 tonn af CO2 á ári.

Ársverk fyrstu 20 árin eru um 29 árlega eða samtals 584 ársverk á tímabilinu.

Rækta þarf skóg í 20% lands neðan 400 m hæðarlínu til að binda losun íbúa vegna jarðefnaeldsneytis og lífræns úrgangs.

 

 

                           Áætlaður skógur                                                                                   Skógur í dag 

Moltulundur er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Vistorku og Moltu ehf. og er styrkt af Umhverfisráðuneytinu. Leggja á grunn að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli þar sem gerð verður tilraun til trjáræktar og landgræðslu á rýru svæði yfir 500 metrum.

Carbfix

Skógrækt er ekki eina aðferðin sem notuð er á Íslandi til að binda koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Fyrirtækið Carbfix hefur náð að beisla það náttúrulega ferli kolefnisbindingar þegar koldíoxíð er bundið í steindum í bergi á umhverfisvænan og arðbæran hátt.

Koldíoxíðinu og öðrum vatnsleysanlegum gastegundum, eins og brennisteinsvetni úr útblæstri, er dælt niður í bergið og umbreytist það þá á innan við tveimur árum í grjót.

Þessi aðferð hefur verið notuð í rekstri Hellisheiðarvirkjunar í meira en fimm ár og hefur á þeim tíma minnkað CO2 útblástur hennar um þriðjung.

Carbfix, Orka náttúrunnar og svissneska fyrirtækið Climework hafa starfað saman á tilraunastöðunni á Hellisheiði. Til stendur að opna aðra stöð árið 2021 í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar. Stefnt er að því að sú stöð hafi getu upp á bindingu 4.000 tonna af CO2 á ári.

Carbfix

 

Endurheimt votlendis

Endurheimt votlendis er ein leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Votlendissjóður, í samstarfi við landeigendur, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga, hefur að markmiði að endurheimta það votlendi sem áður hafði verið framræst á Íslandi.

Endurheimt votlendis er ein öflugasta leiðin í mótvægisaðgerðum á Íslandi. Ef teknir eru allir þeir þætti sem losa CO2 á Íslandi, að frátöldu alþjóðlegu flugi yfir landið, ber framræst votlendi ábyrgð á um 60% losunar CO2 á Íslandi.

Votlendissjóður

Carbon Iceland

Carbon Iceland er fyrirtæki sem hyggst reisa stórt lofthreinsiver þar sem nýtt verður aðferð sem kanadíska fyrirtækið Carbon Engineering hefur þróað. Áætlanir eru um að lofthreinsiverið verði reist á vistvænum iðngarði á Bakka við Húsavík. Markmið Carbon Iceland er að binda eina milljóna tonna af CO2 á ári með „Direct Air Capt­ure“-tækninni og að kolefnið sem binst við þetta ferli verði notað sem grænt eldsneyti á skip og í aðrar samgöngur.  Einnig eru áætlanir um að nýta þessa orku í matvælaiðnaði. 

Vonir standa til að hafist verði handa við að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að vinnsla geti hafist árið 2025.

Carbon Iceland