Fara í efni

Leifur Arnar

Leifur Arnar

Verkefnið Leifur Arnar snýst um að auka vitund á loftslags-, umhverfis- og auðlindaáhrifum matarsóunar og notkun umbúða fyrir tilbúin matvæli - Hvað verður um MATAR-LEIF-ARNAR.

Markmið verkefnisins eru tvíþætt:

  • Að minnka matar- og umbúðasóun á veitingastöðum með því að koma upp umbúðakerfinu “Leifur Arnar” þ.e. að fólk geti tekið með sér matinn (take-away eða leifarnar) í samræmdum umbúðum sem setja má í moltugerð.
  • Að koma upp hvata- og vottunarkerfi sem tryggir að veitingastaðir vinni samkvæmt loftslagsþrennunni að:
  1. Minnka matarsóun með Leif Arnar kerfinu
  2. Skila allri notaðri steikingarolíu í lífdísilgerð (Orkey)

Allur lífrænn úrgangur fari í jarðgerð (Molta) 

 

Aðgerðir ríkisins - lofslagsávinningur:

Loftslagsáhrif eru talsverð. Samkvæmt lauslegri greiningu fyrir verkefnið falla til um 500 lítrar af steikingarolíu og 15 tonn af lífrænum úrgangi á ári, hjá dæmigerðum veitingastað. Þetta þýðir að veitingastaður sem skilar ekki inn olíu í lífdísilgerð og lætur lífrænan úrgang í almenna urðun veldur losun sem nemur 21 tonni af CO2 á ári, borið saman við stað sem skilar olíu og lífrænum úrgangi í réttan farveg. Það er því til mikils að vinna að ná til veitingastaða með betra kerfi. Auk þess mun minni matasóun með afganga-bökkum skila minni losun sem er erfitt að setja nákvæma tölu á.

Ísland hefur skuldbundið sig til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Í aðgerðaráætlun ríkisins stendur m.a.: „Áætlað er að losun frá úrgangi árið 2030 hafa dregist saman um 104 þúsund tonn af CO2-ígildum“.

Útfærsla og hönnunarvinna:

Nú þegar eru margir matvælaframleiðendur og skyndibitastaðir farnir að feta í átt að betri umbúðum og verslanir jafnvel farnar að bjóða viðskiptavinum að koma með eigin ílát. Fyrir þá staði sem eru nú þegar með umbúðir sem mega fara í jarðgerð snýr þátttaka í verkefninu meira að merkingum og vottun þar sem veitingarstaðurinn skuldbindur sig til að skila allri steikingarolíu og lífrænum úrgangi í réttan farveg.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er komin hugmynd af íláti fyrir matar-Leif-Arnar en með samvinnu veitingarstaða erum við að leita eftir tillögum og hugmyndum svo að þessi ílát sem tengjast verkefninu henti sem best og geti nýst fyrir ólíkar veitingar. Vert er að benda á að umbúðir úr lífplasti (plastflokkar merktir: PLA, PHA, PHB, PHBV, PCL, PBS og PBAT) eiga ekki að fara í jarðgerð þótt þær séu markaðsettar með þeim hætti en niðurbrot þessara umbúða verður einungis við ákveðin skilyrði sem ekki eru fyrir hendi í jarðgerðarstöðinni Moltu ehf.